Gefðu B-myndunum séns!

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Áður en geisladiskar komu til sögunnar og síðar streymisveitur,  gáfu hljómsveitir og tónlistarmenn út smáskífur á vínil með vinsælustu lögunum.  Aðallagið var á A-hliðinni og á B-hliðinni var annað lag, sem ekki þótti jafn mikið varið í.  Oft voru aukalögin á B-hliðinni samt alveg ágæt og jafnvel bara nokkuð góð þegar maður gaf þeim séns.

Þessu er ekkert ósvipað farið með ljósmyndirnar sem maður tekur. Á hörðu diskunum er aragrúi mynda sem maður hefur aldrei gert neitt með. Ég hendi aldrei myndum nema þær séu augljóslega misheppnaðar. Það er nefnilega þannig að innan um geta leynst mjög fínar myndir sem ekki sleppa í gegnum fyrstu síuna þegar maður  velur úr þær myndir sem maður ætlar að nota eða sýna.  Þegar komið er heim úr ljósmyndaferð með fullt minniskort af myndum velur maður úr þær sem manni finnst mest varið í.  Þetta eru kannski ekki nema 10-15% af öllum myndunum – bestu skotin. Hinar verða eftir á harða diskinum.  Þegar maður fer  yfir þær í rólegheitunum löngu seinna, þá koma oft í ljós alveg ágætar myndir sem fóru fram hjá manni við fyrsta val.
Sumir taka til á diskunum sínum reglulega og henda þessum aukamyndum  til að nýta diskaplássið. Ég hins vegar þori það ekki af ofangreinum ástæðum.  Maður gæti óvart hent gullmolum í ruslið!

Hér að neðan eru nokkur „B-myndir“ sem sluppu ekki í gegn í fyrsta vali en fengu séns þegar ég var að fara yfir myndasafnið mitt á dögunum.

Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri.

 

Lónsöræfi
Lónsöræfi

 

Skeiðarárjökull
Á göngu yfir Skeiðarárjökul.

 

Kerlingarfjöll
Á göngu í Kerlingarfjöllum. Hofsjökull í bakgrunni.

 

Svínafellsjökull
Á Svínafellsjökli. Hrútsfjallstindar gnæfa yfir.

 

Kerlingarfjöll
Á göngu í Kerlingarfjöllum.