Frostfegurð

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Frostkaldir dagar og fallegar froststillur um miðjan vetur bjóða upp á mörg áhugaverð myndefni. Í frosnum stöðuvötnum og íslögðum pollum myndast oft myndræn form sem skemmtilegt er að ljósmynda í nærmynd. Nú í vikunni notaði ég tækifærið í logninu á undan storminum og brá mér niður að Snorrastaðatjörnum, þangað sem ég fer oft á öllum árstímum til að njóta náttúrunnar í fallegu umhverfi. Tók með mér litlu, handhægu Canon M6 vélina með 15-45mm linsunni og macro linsu. Klæddi mig að sjálfsögðu mjög vel vegna þess að þegar maður stoppar lengi á sama stað er maður fljótur að krókna, tala ekki um þegar maður leggst á magann á svellið til að ná því allra smæsta í fegurð frostsins. Afar mikilvægt er að klæða sig vel vegna þess að ef manni er kalt nýtur maður þess síður að vera úti. Fóðraðar buxur og heimskautaúlpa gerði mér kleift að njóta útiverunnar með myndavélina í nokkra klukkutíma. Þannig á það vera og maður kemur heim endurnærður eftir að hafa andað að sér köldu, fersku og hreinu lofti. Þetta eru meðal minna bestu stunda.

Frostið myndar allskonar skemmtileg mynstur og form sem maður kemur auga á ef maður gefur sér góðan tíma til að gaumgæfa og skoða. Það er lykilatriði í þessu: Að gefa sér góðan tíma. Þess vegna finnst mér gott að fara einn í svona myndatökur. Ég hef allan þann tíma sem ég vil, ræð honum algjörlega sjálfur, enginn að bíða eftir mér, engin pressa og ekkert stress. Auk þess er ég svokallaður intróvert persónuleiki þannig að mér finnst alls ekkert leiðinlegt að vera einn með sjálfum mér :)

Hér að neðan eru nokkur skot frá deginum. Í þeim má sjá ýmisleg form og fígúrur, allt eftir ímyndarafli hvers og eins:

Agnarsmátt, nýfallið snjókorn. Tekið með macro linsu
_____________________________________________________

Smellið á smámyndirnar til að skoða: