Að ljósmynda norðurljós

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Oft er ég spurður um ráð varðandi norðurljósa-myndatökur og því ákvað ég að skrifa niður helstu tæknilegu atriðin sem snerta þetta sívinsæla viðfangsefni.

1. Lýsingartíminn er yfirleitt 15-20 sekúndur. Þetta fer auðvitað eftir því hversu sterk norðurljósin eru hverju sinni. Sumir fara jafnvel upp í 25-30 sekúndur. Hafa ber í huga að við það langan lýsingartíma geta stjörnurnar rákast, þ.e. verða ekki lengur skarpir punktar. Það getur virkað eins og myndin sé hreyfð. Ástæðan er sú að jörðin snýst örlítið á meðan á lýsingartímanum stendur. Þessi áhrif geta verið mismunandi eftir linsugerð.

2. Ljósop gæti verið 4.0 – 5.6. Þó linsan leyfi stærra ljósop þá er ekki víst að það borgi sig vegna dýptarskerpunnar.

3. Reyndu að komast af með 100 – 200 ISO og helst ekki hærra en 400. Langur lýsingartími með hærra ISO er ávísun á mikið suð (noise) sem kemur alls ekki vel út. Myndin verður mjög kornótt.

northern lights1

4. Maður þarf yfirleitt að „hitta á það“ í þessum myndatökum en gott er að vinna út frá því sem getið er um í lið 1-3. Norðurljósin eru æði mismunandi að styrkleika og stilling sem virkaði vel í gær þarf ekki endilega að gera það í dag. Fyrst tekur maður eina til tvær myndir og skoðar útkomuna.  Ef myndin er undirlýst lengir maður lýsingartímann eða stækkar ljósop. Eða hækkar ISO sem eykur ljósnæmið. Og öfugt ef myndin er yfirlýst. Finndu bestu útkomuna.  Þetta kemur með æfingunni.

5. Það getur verið all snúið að ná fókus í myrkrinu. Auto-focus kerfið þarf alltaf að hafa eitthvað ljós til að vinna með. Þú gætir hugsanlega tekið fókusinn á skæra stjörnu eða eitthvað ljós í fjarska. Jafnvel hlaupið með vasaljós 10-20 metra og tekið fókusinn á það. Þegar þú hefur náð fókus þá er heillráð að setja linsuna á manual fókus (litli A/M takkinn á linsunni), stilla síðan myndefnið af í glugganum og skrúfa vélina í fasta stöðu á þrífætinum áður en smellt er af. Ef fókusinn á linsunni er áfram á auto gæti hún farið að leita að fókus í myrkrinu. Besta ráðið er hins vegar að nota Infinity fókus (er samt ekki  á öllum linsum) því þá ertu öruggur. Lesa má nánar um Infinity focus hér.

 

Hér átti ég í erfiðleikum með að ná fókus. Leysti það með því að hlaupa með vasaljós og setja það á þakhorn kofans. Hljóp til baka, tók fókusinn á ljósið, setti linsuna á manual fókus, stillti myndefnið af í glugganum og náði síðan í ljósið áður en ég smellti af.
Hér átti ég í erfiðleikum með að ná fókus vegna myrkurs. Leysti það með því að hlaupa með vasaljós og setja það á þakhorn kofans. Hljóp til baka, tók fókusinn á ljósið, setti linsuna á manual fókus, stillti myndefnið af í glugganum og náði síðan í ljósið áður en ég smellti af. Tunglið sá um að lýsa upp forgrunninn.

 

6. Notaðu gleiðasta horn linsunnar. Forðastu að nota aðdrátt.

7. Ef þú ert ekki með afhleypara, stilltu þá tímastillinn á myndavélinni á 2sek og láttu hana smella af sjálfa. Það getur myndast hreyfing þegar þrýst er á gikkinn á myndavélinni . Þetta er allt voða viðkvæmt fyrir hreyfingu.

8. Hafðu hendina fyrir glugganum á myndavélinni (viewfinder) eða stattu fyrir aftan hana meðan á lýsingartímanum stendur. Á þetta löngum lýsingartíma er sú hætta fyrir hendi að ljós læðist inn á vélina „bakdyrameginn“. Passaðu þig samt á að snerta hvorki myndavélina eða þrífótinn.

9. Alls ekki vera með filter framan á linsunni í svona myndtökum. Þá eru yfirgnæfandi líkur á að þú fáir mjög torkennilega hringi í miðju myndarinnar. Margir eru alltaf með Skylight/UV filter framan á linsunni og nota hann sem hlífðargler. Betra er jú að filterinn skemmist heldur en glerið á linsunni ef óhapp verður. Og af því maður er vanur að hafa filterinn á, þá gleymist að taka hann af.

Þetta gerist ef þú ert með filter framan á linsunni.
Þetta gerist ef þú ert með filter framan á linsunni.

10. Hægt er að fylgjast með norðurljósaspá á vef Veðurstofunnar, sjá hér.

11. Æfingin skapar meistarann. Það er ekkert víst að fyrsta norðurljósamyndatakan heppnist hjá þér. En þú ferð allavega reynslunni ríkari í þá næstu.