Að fanga litadýrð norðurljósanna

posted in: Ljósmyndablogg | 0

Öflugir sólstormar undanfarið hafa orsakað mikla norðurljósavirkni um allt norðurhvel jarðar.

Þessir öflugu sólstormar hafa þau áhrif að norðurljósin hafa náð sunnar en venjulega og þau hafa verið óvenju litrík. Eftir því sem virknin er öflugri þess meira litróf kemur fram í norðurljósunum. Þau eru nefnilega ekki bara græn þótt það sé liturinn sem við sjáum oftast. Þriðjudagskvöldið 17. mars voru þau óvenju litrík með rauðum, bleikum, fjólubláum og bláum tónum í bland við græna litinn. Litadýrðin stafar frá örvuðu súrefni annars vegar (grænir og dökkrauðir  tónar) og hins vegar frá örvuðu köfnunarefni eða nitri (bláir og fjólubláir tónar).  Litirnir ráðast af hæð ljósanna yfir jörðinni. Í um það bil 100 km hæð gefur súrefnið frá sér græna litinn en í um eða yfir 300 km hæð gefur það frá sér rauðan lit.

_MG_2407
Hér sést glögglega hvernig litirnir raða sér eftir hæð norðurljósanna frá jörðu.

Erfitt getur verið að greina þessa litatóna með berum augum en þegar ljósið hefur verið síað inn um linsu myndavélarinnar í 15-20 sekúndur koma þeir vel fram á mynd.

Aldrei hef ég séð annað eins litróf í norðurljósunum og þetta þriðjudagskvöld. Virknin var svo mikil að þau voru vel greinileg strax í ljósaskiptunum en oftast nær þarf maður að bíða fram í myrkur til að sjá þau vel. Enda ætlaði ég ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég leit á norðurljósaspána fyrir kvöldið og sá að hún var efst á skalanum 0-9. Það telst mjög gott ef spáin nær fjórum til fimm stigum en þarna var hún komin í níu, sem er hámarksvirkni. Yfirleitt nenni ég ekki að eltast við norðurljós en spáin var með svo miklum ólíkindum að ég varð að drífa mig út, þrátt fyrir slappleika og magakveisu. Það var vel þess virði því þetta sjónarspil á himni var töfrum líkast.

Svona leit norðurljósaspáin út fyrir kvöldið. Þetta hef ég ekki séð áður.
Svona leit norðurljósaspáin út fyrir kvöldið. Þetta hef ég ekki séð áður.

 

_MG_2341
Strax í ljósaskiptunum voru norðurljósaslæðurnar orðnar vel sýnilegar. Hér dansa ljósin yfir Keili og Fagradalsfjalli.

 

Ég notaði 15 sekúndna lýsingartíma þegar ljósin voru mest og jók hann í 20 sekúndur þegar þau voru daufari. Hélt mig yfirleitt við 400 ISO og fór mest upp í 640 ISO. Hátt ISO á svona löngum lýsingartíma veldur því að myndin verður mjög kornótt. Það kemur kannski ekki að sök þegar hún er í sett í 700-800 punkta pixlastærð á netið. Hún lítur ágætlega út á skjá en í prentun gæti hún komið illa út. Best er að halda lýsingartímanum innan 20 sekúndna ef maður mögulega getur. Hægt er að komast upp með 25-30 sek ef ljósin eru í daufara lagi. En þá er líka hætt við að maður fái strik í stjörnunar og þær verði ekki lengur skarpir punktar. Jörðin snýst nefnilega örlítið meðan á lýsingartímanum stendur.

Það er grundvallaratriði að taka myndirnar í RAW skrársniðinu til að fanga þessi litbrigði. Þau geta verið það dauf að mannsaugað greini þau varla eða alls ekki. Þau koma hins vegar í ljós þegar ljósið er síað inn um linsuna á löngum tíma, eins og áður segir.  Ef tekið er í jpeg skráarsniðinu er hætt við að þessar fíngerðu upplýsingar, sem myndflagan vissulega nemur,  tapist vegna þjöppunarinnar sem jpeg notar þegar hugbúnaður myndavélarinnar býr til mynd úr þeim upplýsingum sem berast á myndflöguna í gegnum linsuna. Rawskráin er hins vegar alveg ójöppuð og inniheldur því ómengaðar upplýsingar og úr þeim þarf að búa til mynd.  Þess vegna þarf að „framkalla“ myndina í hinu stafræna myrkaherbergi myndvinnsluforritsins. Þetta snýst því ekki eingöngu um að „taka“ mynd heldur líka að „gera“ mynd – draga fram þessi litbrigði því þau eru þarna þótt þó séu tæplega greind með berum augum.

Að lokum bendi ég á fyrri pistil hér á ljósmyndablogginu um tæknileg atriði viðkomandi norðurljósa-myndatökum.

 

Hér beini ég linsunni beint upp í slæðuna sem dansaði yfir höfði mér. Litbrigðin eru mögnuð.
Hér beini ég linsunni beint upp í slæðu sem dansaði yfir höfði mér. Litbrigðin eru mögnuð.

_MG_2398

_MG_2385
Ekki er óalgengt að maður fái stjörnuhrap inn á norðurljósamyndir.

 

Rauði liturinn myndast í 300km hæð, græni liturinn í um 100km hæð.
Rauði liturinn myndast í 300km hæð, græni liturinn í um 100km hæð.