Nýr hellir fundinn

posted in: Ljósmyndablogg | 0

 

Að finna áður óþekktan helli er draumur sérhvers hellaáhugamanns.  Að stíga inn fæti þar sem enginn hefur áður komið og berja augum eitthvað sem enginn annar hefur séð, er afar sérstök tilfinning og margir hellamenn leggja mikið á sig til að ná þeirri upplifun.  Og víst er að undir hraunflákunum eru ótal leyndarmál sem bíða þess að verða uppgötvuð, ekki síst á afskekktari svæðum , langt úr alfaraleið, sem ekki  hafa verið könnuð í þessum tilgangi enda enginn farið þar um nema kannski einhverjir smalamenn.

Um helgina fór ég ásamt þremur hellavinum í leiðangur upp í fjalllendið austan Kleifarvatns til að kanna þar svæði sem mér fannst líklegt að geyma áður ófundna hella. Ég hafði legið yfir loftmyndum af svæðinu til að kortleggja hraunrennslin og á þeim gat ég greint nokkur göt sem vöktu forvitni mína. Þarna voru greinilega niðurföll í hrauninu. Og það var bara ein leið til að komast að því hvort þau væru opin inn í hella og hún var sú að fara á staðinn.  En til þess þurfti að leggja á sig talsvert labb þar sem svæðið er langt utan alfaraleiða. Það var ekki mjög auðvelt með 15 kíló af útbúnaði á bakinu yfir úfið hraun. En puðið var þess virði því við fundum þarna býsna snotra hellarás, á að giska eitthvað á bilinu 150-200 metra langa og opna í báða enda.  Þarna í kring voru svo nokkrir smærri hellar.  Hellirinn og umhverfi hans var algjörlega ósnortið, ekki var hægt að sjá neitt traðk í mosa eða nein merki um mannaferðir. Líklega vorum við því fyrstu manneskjurnar sem þarna stigum inn fæti og það er nokkuð sérstök tilfinning. Og þar sem ég var með þrjár skemmtilegar konur í föruneyti nu ákvað ég að nefna hellinn Stelpuhelli.

Ljóst er að ég þarf að fara fljótlega aftur á svæðið og kanna það betur því á loftmyndunum má sjá fleiri holur í hrauninu sem gæti verið vert að skoða betur.  Þá ætla ég að taka drónann með mér en hann getur verið hið mesta þarfaþing í svona leiðangri.  Bæði veitir hann góða yfirsýn, sparar tíma og minnkar óþarfa traðk á mosa.

Hellamennskan er virkilega skemmtileg og gefandi en um leið mjög krefjandi. Að labba með allan útbúnaðinn á bakinu langar leiðir tekur vel í. Ég þarf að endurskoða búnaðinn minn með tilliti til þessa og þá helst reyna að finna mér nettari og léttari myndavél með góðri víðlinsu í stað hlunksins sem ég er með í dag. Maður finnur vel fyrir þessu í skrokknum daginn eftir en það gerir gæfumuninn að ég er með ákaflega vandaðan og góðan bakpoka.  Það skiptir gríðarlega miklu máli. Og svo væri ekki verra ef maður væri aðeins yngri :)

Meðfylgjandi er nokkrar myndir sem ég tók í leiðangrinum. Smellið á þær til að skoða.