Eyðileggja fágæta náttúru á heimsvísu

posted in: Reykjanesskagi | 0

HS Orka hefur fengið leyfi Grindavíkurbæjar fyrir rannsóknarborunum við gígaröð Eldvarpa á Reykjanesi. Skipulagsstofnun segir um að ræða umfangsmikið, óafturkræft rask á vel grónum, óröskuðum svæðum, m.a. mosagrónum nútímahraunum sem hafa ákveðna sérstöðu vegna fágætis á heimsvísu.

Eldvörp eru um 10km löng gígaröð skammt vestan við Bláa lónið og Svartsengi.  Gígaröðin myndaðist í Reykjaneseldum á 13. öld en þá runnu Eldvarpahraun, Stampahraun yst á Reykjanesi og Arnarseturshraun en í gegnum það liggur Grindavíkurvegurinn. Þegar farið er um þessi svæði á ysta hluta Reykjanesskagans er ekki erfitt að ímynda sér hvað gengið hefur á í þessum miklu jarðeldum. Hvergi í heiminum eru ummerki eldvirkninnar á mótum tveggja jarðskorpufleka jafn sýnileg á þurru landi.  Segja má að Eldvörp séu eins og smækkuð útgáfa af Lakagígum, frægustu gígaröð landsins og eru þau á náttúruminjaskrá.

Eldvörp: Horft yfir hluta af sunnanverðri gígaröðinni ofan af einum gígnum.
Eldvörp: Horft yfir hluta af sunnanverðri gígaröðinni ofan af einum gígnum.

Umfangsmikið, óafturkræft rask

Gígaröðin öll er afar forvitnileg og raunar er Eldvarpasvæðið allt kynngimagnað þar sem saman fer áhugaverð jarðfræði og forvitnileg saga. Umhverfis þessar merkilegu jarðminjar liggja gamlar alfaraleiðir og vinsælar gönguleiðir eins og Árnastígur, Skipsstígur og Prestastígur.

Bæjaryfirvöld í Grindavík hafa nýverið veitt HS Orku leyfi til rannsóknarborana í Eldvörpum, þrátt fyrir umsögn Skipulagsstofnunar um neikvæð umhverfisáhrif af slíkum borunum. Í deiliskipulagi er gert ráð fyrir fimm risastórum borteigum nánast ofan í gígaröðinni en hver og einn þeirra verður á bilinu  4 – 5 þúsund fermetrar að stærð.

Skipulagsstofnun skilaði áliti um matsskýrsluna síðastliðið haust og tekur í umsögn sinni undir þau sjónarmið að lítt raskað svæði eins og Eldvörp sé afar mikilvægt til útivistar og ferðamennsku í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Stofnunin segir áhrif fyrirhugaðra framkvæmda „talsvert neikvæð“ vegna rasks á eldhrauni. Jafnframt verði áhrif á gróður talsverð neikvæð þar sem um sé að ræða „nokkuð umfangsmikið, óafturkræft rask á vel grónum, óröskuðum svæðum, m.a. mosagrónum nútímahraunum sem hafa ákveðna sérstöðu vegna fágætis á heimsvísu“, segir í umsögninni.

Í Eldvörpum er að finna kynngimagnaða náttúru þar sem jarðhitinn sveipar umhverfið dulúð.
Í Eldvörpum er að finna kynngimagnaða náttúru þar sem jarðhitinn sveipar umhverfið dulúð.

Segja eitt en gera annað

Jarðvangurinn Reykjanes Geopark var stofnaður að frumkvæði Grindavíkurbæjar og HS Orku og er ætlað að hafa „fræðslugildi vegna fjölbreytilegrar náttúru og sjaldgæfra jarðminja“ svo vitnað sé beint í talsmann jarðvangsins. Í nýlegu fjölmiðlaviðtali talar bæjarstjórinn í Grindavík einnig um „uppbyggingu ferðaþjónustu og fræðslu sem byggir á einstökum jarðminjum“. Þessar yfirlýsingar verða að teljast furðulegar í ljósi þess að á sama tíma gaf Grindavíkurbær HS Orku leyfi til rannsóknaborana ofan í merkilegustu jarðminjum svæðisins þar sem gígaröðin í Eldvörpum verður „skreytt“ með fimm risastórum borteigum.

Í matsskýrslunni vegna framkvæmdanna kemur glögglega fram að tengsl eru á milli hitasvæðanna í Eldvörpum og Svartsengi. Allt bendir til þess að um sama jarðhitageyminn sé að ræða. Orkuvinnsla í Eldvörpum yrði því aldrei sjálfbær, ekki frekar en vinnslan í Svartsengi sem er keyrð á rúmlega 70% afköstum til að hægt sé að halda henni í jafnvægi. HS Orka vill semsagt ganga úr skugga um þetta með tilraunaborunum. Náttúran fær ekki að njóta vafans.

Myndagallerí:

Krýsuvík Trölladyngja