Áhugavert gönguland í stórbrotinni eldfjallanáttúru

posted in: Reykjanesskagi | 0

Krýsuvíkur- og Trölladyngjusvæðið á Reykjanesskaga er vinsælt meðal göngufólks og náttúruunnenda enda er þar að finna magnaða eldfjallanáttúru og landslag sem kemur á óvart.  Af fjórum svæðum innan Reykjansfólkvangs er aðeins Trölladyngja eftir í biðflokki rammaáætlunar. Hin þrjú hafa öll verið sett í orkunýtingarflokk, samkvæmt drögum að 3ja áfanga.  Allt Krýsuvíkursvæðið verður því virkjað samkvæmt því.  Trölladyngjusvæðið, sem hér verður fjallað um,  markar vestari mörk Reykjanesfólkvangs.

Kvöldstemmning í Sogum við Trölladyngju.
Kvöldstemmning í Sogum við Trölladyngju.

 

Frábært gönguland

Á miðjum Reykjanesskaganum eru tveir fjallahryggir sem setja sterkan svip á landslag skagans. Þeir teygja sig frá suðvestri til norðausturs eftir sprungustefnu eldstöðvakerfanna á skaganum enda mynduðust þeir við endurtekin sprungugos undir ísaldarjökli. Annar þeirra heitir Sveifluháls, sem ásamt Brennisteinsfjöllum í vestri,  rammar inn Krýsuvík.  Hinn liggur vestar og heitir Núpshlíðarháls og upp af honum rís sjálf Trölladyngja, eitt af formfegurri fjöllum Reykjanesskagans. Trölladyngjusvæðið tilheyrir líklega sama eldstöðvarkerfinu og Krýsuvík enda liggja þau nálægt hvort öðru. Saman mynda þessi svæði afar áhugavert gönguland í magnaðri eldfjallanáttúru stutt frá mesta þéttbýli landsins. Í því eru verðmæti þessa svæðis fólgin. Auðlind  er ekki endilega náttúrusvæði sem hægt er að setja undir borteiga eða sökkva í uppistöðulón. Auðlind er líka fólgin í lítt snortinni náttúru.

Í sátt við umhverfið?

Hægt er að nálgast Trölladyngju á tvo vegu. Annars vegar frá Djúpavatni og Lækjarvöllum þegar ekið er eftir Vigdísarvallavegi.  Gönguglaðir geta einnig labbað að svæðinu frá t.d. Seltúni í Krýsuvík yfir Sveifluháls og Móhálsadal. Hins vegar er hægt að beygja  af Reykjanesbrautinni á mislægu gatnamótunum við Kúagerði. Þar er skilti sem vísar á fjallið Keili. Haldið er eftir þeim sama vegi. Hann er nokkuð grófur en ætti að vera fólksbílafær ef varlega er farið. Honum er fylgt  eins langt og komist verður, fram hjá graslendinu á Höskuldarvöllum, beygt á hægri hönd til móts við sjálfa Trölladyngju og haldið áfram uns komið er að borstæði . Þaðan liggur vegslóð upp hlíðina að öðru borstæði. Vert er að skoða og velta fyrir sér þessum ummerkjum eftir rannsóknarboranir HS Orku en þau eru dæmigerð fyrir það hvernig EKKI skal standa að slíkum framkvæmdum. Í stað þess að nýta neðra borstæðið var vaðið á jarðýtu nánast ofan í Sogalækinn og upp í  hlíðina til að gera nýtt borstæði. Auðvitað allt í „sátt við umhverfið“ svo vitnað sé í slagorð fyrirtækisins. Eða hitt þó heldur. Við blasir gríðarlegt sár mitt í gróinni hlíð. Þrátt fyrirað  þessar  tilraunaboranir hafi ekki gefið góða raun var svæðið sett í biðflokk í öðrum áfanga rammaáætlunar því menn hafa hugsað sér að þjösnast þarna áfram með jarðborinn.

Horft til norðurs yfir Sog og Spákonuvatn. Borstæðið til hægri er eftir rannsóknarboranir HS Orku. Í stað þess að nota eldra borstæði, sem sést fjær á myndinni, var ákveðið að vaða með jarðýtuna upp á hálsinn meðfram Sogalæknum. Eftir stendur gríðarstórt sár mitt í gróinni hlíð. Í matsskýrslu er þetta kallað „óverulegt umhverfisrask“.
Horft til norðurs yfir Sog og Spákonuvatn. Borstæðið til hægri er eftir rannsóknarboranir HS Orku. Í stað þess að nota eldra borstæði, sem sést fjær á myndinni, var ákveðið að vaða með jarðýtuna upp á hálsinn meðfram Sogalæknum. Eftir stendur gríðarstórt sár mitt í gróinni hlíð. Í matsskýrslu er þetta kallað „óverulegt umhverfisrask“.

Litadýrð Soganna

Ef gengið er upp hlíðina ofan við borstæðið blasir við afskaplega fallegt og litríkt gil, sem nefnist Sog. Litskrúðið skýrist af mikilli ummyndun bergs eftir jarðhita. Eftir gilsbotninum rennur Sogalækur, sem lætur lítið yfir sér en hefur þó afrekað það á löngum tíma að bera fram allan þann jarðveg sem getið hefur af sér graslendið á Höskuldarvöllum.  Hér er um að gera að rölta eftir hálsinum umhverfis Sogin og virða fyrir sér litadýrðina. Útsýnið í austurátt yfir Djúpavatn og Móhálsadal skemmir heldur ekki fyrir. Hér er mikil náttúrufegurð sem eldvirknin hefur mótað.

Ummerki Krýsuvíkurelda

Milli hálsanna tveggja liggur Móhálsadalur, þakin er hraunum úr Krýsuvíkureldum sem hófust 1151. Gosið stóð lengi með hléum en 25 km löng gossprunga opnaðist eftir endilöngum dalnum með miklu hraunrennsli sem náði til sjávar bæði sunnan og norðanmegin á Reykjanesskaganum. Að norðanverðu heitir það Kapelluhraun og Ögmundarhraun að sunnanverðu. Ofan af eggjum hálsins má vel sjá gígana utan í móbergsfjöllunum. Eldvörp af öllum stærðum og gerðum frá mismunandi tímum prýða landslagið beggja vegna Núpshlíðarhálsins.

Systurnar Trölladyngja og Grænadyngja setja sterkan svip sinn á landslagið. Sú fyrrnefnda er 375 metra há en Grænadyngja 400 metrar. Auðvelt er að ganga á þessi fjöll og þaðan er stórgott útsýni til allra átta. Hér er móbergið ráðandi og í Trölladyngju hefur fundist silfurberg.  Hvorki Trölladyngja né Grænadyngja eru  eiginlegar dyngjur í jarðfræðilegum skilningi  heldur hefðbundin móbergsfjöll.

Neðan við hálsinn að austanverðu er feiknamikill, forn eldgígur sem fyllst hefur af vatni og heitir Djúpavatn. Dýpsti hluti þess er 16,7 metrar.  Eitthvað af bleikju er í vatninu. Það var talið fisklaust þar til bleikju af Þingvallastofni var sleppt í það í kringum 1960. Vatnið og veiðihúsið hefur verið í umsjá Stangveiðifélags Hafnarfjarðar. Héðan er hægt að rölta eftir hálsinum t.d. í  suðurátt að Grænavatni , sem einnig er forn eldgígur.

 

Fallegt landslag í Sogum. Rollur á beit.
Fallegt landslag í Sogum. Rollur á beit.

Söguminjar í Sogaselsgíg

Þegar haldið er til baka niður slóðann frá efra borstæðinu blasir við einkar formfagur og allstór gígur á hægri hönd. Þetta er Sogagígur og vert er að staldra við og skoða hann. Innan í gígnum eru greinilegar mannvistarleifar. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík um tíma og eru tóftirnar í gígnum vitnisburður um horfna búsetuhætti. Fyrir vikið hefur gígurinn einnig verið nefndur Sogaselsgígur. Hann er mjög skjólgóður og hefur því verið góð selsstaða. Gígurinn myndar fallega umgjörð um selið.

Eins og þessi lýsing gefur vonandi til kynna býður þetta svæði upp á fallega og fjölbreytta náttúru, forvitnilega jarðfræði og sögu. Hér eru því miklir möguleikar til útvistar og náttúruupplifunar, stutt frá mesta þéttbýlissvæði landsins. Frekari boranir og jarðrask á þessu svæði myndi hafa mikil áhrif á ásýnd þess og rýra upplifun þeirra sem þar fara um. Það rask sem þegar hefur verið gert er glöggt vitni um það. Í ofanálag gerir Landsnet ráð fyrir háspennustreng þvert yfir allan fólkvanginn yfir hálsana tvo, verði virkjað í Krýsuvík.  Sú fyrirætlan að umbreyta fólkvangi í iðnaðarsvæði er í raun algjörlega óskiljanleg.

 

Krýsuvík Eldvörp