Suðurnesjaperlur: Krýsuvíkurberg

posted in: Reykjanesskagi, Suðurnesjaperlur | 0

Í ljósmyndabókinni Reykjanesskagi – Náttúra og undur, segi ég m.a. frá fuglabjörgunum Hafnabergi og Krýsuvíkurbergi í máli og myndum en það síðarnefnda er stærst fuglabjarga á Suðvesturlandi. Það er víðast hvar um 50 metra hátt og hæst um 70 metrar.  Vegalengdin milli bergsenda er um það bil 10 km.  Talið er að hátt í 60 þúsund fuglapör verpi í bjarginu.  Mest áberandi eru rita, langvía og álka. Meðal annarra sjófugla sem þar verpa má nefna fýl, lunda, silfurmáf og toppskarf.Margir hraunlagastaflar einkenna bjargið. Austanvert í því eru lögin alls 10 til 11 talsins og eru neðstu lögin langþykkust en þau efri mun þynnri. Ekki er vitað með fullri vissu hvaðan þessi hraun hafa runnið en líklegt er talið að þau hafi komið frá Geitahlíð, fornri grágrýtisdyngju í Krýsuvík. Því má ætla að þau séu frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120 þúsund ára. Bergrunnurinn er grágrýti. 

Eystri lækur fellur fram af bjarginu í þessum snotra fossi. Annar lækur nokkru vestar gerir það sömuleiðis. Þetta munu vera einu fossarnir á vestanverðum Reykjanesskaga.
___________________________________________________________________________

Skammt ofan við bergbrúnina rís allhá alda sem nefnist Selalda og önnur slík, Skriðan (Rauðaskriða) er á bergbrún lítið eitt sunnar og austar. Ljóst er að báðar eru fornar eldstöðvar. Hér virðist hafa gosið í sjó og eyjar myndast er síðar tengdust landi er grágrýtishraun tóku að renna. Kröftug úthafsaldan og tíðir jarðskjálfar vinna ótt og títt á berginu enda er það blandað gjalli og fíngerðari gjóskulögum sem láta auðveldlega undan slíkum ágangi. Varasamar sprungur hafa myndast af þessum sökum og er hrun úr berginu ekki óalgengt.  Ættu ferðalangar því umfram allt að gæta fóta sinna og fara ekki fram á ystu nöf.

Fuglalíf er með miklum blóma í bjarginu.
_________________________________

Áður fyrr voru fuglabjörgin mikil matarkista og var Krýsuvíkurberg nýtt til eggja- og sölvatínslu.   Það gekk þó ekki alltaf áfallalaust en árið 1724 fórust þar þrír menn sem urðu einmitt fyrir grjóthruni . Í Öldinni okkar segir að þann 9. ágúst þetta ár hafi Arngrímur bóndi í Krýsuvík, Bjarnason, sonarson Arngríms lærða og fyrrverandi Skálholtsráðsmaður, farist við þriðja mann undir bjarginu. Höfðu þeir farið á báti undir bjargið til sölvatekju. Jarðskjálftakippur reið yfir og fylla mikil, þrettán faðma há og ellefu faðma breið, sprakk úr bjarginu. Steinn lenti á höfði Arngríms og laust hann til bana en hinir tveir urðu undir fyllunni.

Við bjargið hafa einnig orðið nokkrir skipsskaðar. Steindór GK strandaði þar 1991 og Þorsteinn GK sjö árum síðar. Blessunarlega varð mannbjörg í bæði skiptin. Viti er á bjarginu og var hann reistur árið 1965. Hér að neðan er myndaalbúm og stutt videó frá Krýsuvíkurbergi, sem ég hvet ykkur eindregið til að skoða.


____________________

Þessa mynd tók ég í febrúar 1991 við strand Steindórs GK 101 undir bjarginu.
Blessunarlega var öllum átta skipsverjunum bjargað á land en það mátti ekki tæpara standa því báturinn var lagstur á hliðina, valt í grjótinu og sjór gekk yfir skipsverjana þar sem þeir höfðust við í brú skipsins og biðu björgunar.  Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti skipsverjana í þrennu lagi upp á bjargið.
___________________

Bergið í Skriðunni er einkar litfagurt.
__________________________________________

Myndaalbúm – Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri: