Suðurnesjaperlur: Staðarborg

posted in: Suðurnesjaperlur | 0

Á Strandarheiði (einnig nefnd Vogaheiði), um miðja vegu milli Reykjanesbrautar og Vatnsleysustrandarvegar, er einstakt mannvirki er Staðarborg nefnist.  Þessi hringlaga fjárborg er hlaðin af mikilli vandvirkni þar sem hverjum steini hefur verið hagrætt af natni. Enda hefur hleðslan lítið haggast þrátt fyrir að vera orðin nokkur hundruð ára gömul, af því talið er.  Um aldur hennar er ekki vitað með fullri vissu. Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951.

Vegghæð Staðarborgar er um 2 m og þvermál að innan um 8 m. Ummál hringsins að utanverðu er um 35 m. Gólfið inni í borginni er grasi gróið og rennislétt.  Eins og aðrar fjárborgir fyrri tíma hefur hún verið byggð til að féð á heiðinni gæti leitað þar skjóls í illviðrum.

Eins og áður segir er ekki vitað hvenær Staðarborg var hlaðin en um það hafa ekki fundist neinar heimildir aðrar en munnmælasaga sem hermir að að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest.  Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat einnig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina saman að ofanverðu kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði blátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan.

Í bókinni Strönd og vogar (útg. 1961) fjallar höfundur, Árni Óla, um Staðarborg og veltir fyrir sér aldri borgarinnar í samhengi við stærð hennar.  Hann getur þess að um árið 1700 hafi sauðfjáreign prestsins á Kálfatjörn ekki verið það mikil að hann hafi þurft á svona stórri fjárborg að halda. Sömu sögu sé að segja um þá presta sem á eftir komu.
„En af þessu, sem nú hefur verið sagt, má sjá að mestar líkur benda til þess, að leita verði nokkuð aftur í aldir, ef ákveða skal aldur borgarinnar. Það verður að leita að þeim presti, er var svo fjármargur, að hann þurfti á svo stórri borg að halda. Sá prestur hefir ekki verið á Kálfatjörn seinustu 300 árin. Er því rétt að telja borgina til fornminja. Og sjálfsagt var að friða hana vegna þess hvað hún er stórt og merkilegt mannvirki“.
Í lok kaflans skrifar Árni að góðir sauðfjárhagar séu enn í heiðinni, þótt enginn myndi nú vilja taka undir með Skúla fógeta „að það sé eitt hið bezta sauðland á Íslandi“. Af því megi marka, að gróðri hafi farið aftur síðan á hans dögum. „Og þó má fyllilega gera ráð fyrir, að enn meiri munur hafi verið á gróðrinum á Skúla dögum og gróðrinum á landnámstíð. Þá hefir heiðin öll verið kjarri vaxin og miklum gróðri, líkt og enn má sjá í Almenningum. Benda enn til þess örnefni eins og Litla- og Stóra-Skógfell, þar sem nú sést enginn kvistur, og svo önnur nöfn, sem dregin eru af kolagerð. Má því ætla, að sauðfjárrækt hafi verið miklu meiri á þessum slóðum fyrr á öldum heldur en síðar varð er landið spilltist. Þess vegna má vel hugsa sér, að einhvern tíma hafi verið sá prestur á Kálfatjörn, er hafi þurft að láta gera borg fyrir stórt hundrað sauða“, skrifar Árni Óla að lokum.