Suðurnesjaperlur: Kynjamyndir Stampahrauns

posted in: Ljósmyndablogg, Suðurnesjaperlur | 0

Stampahraun yngra er yst á Reykjanesi og rann í mikilli eldgosahrinu á 13. öld sem nefnast Reykjaneseldar.  Ljóst er að mikið hefur gengið á í þessari goshrinu sem hófst árið 1210. Mesta virknin hefur staðið yfir til ársins 1240 en þá runnu fjögur hraun á Reykjanes- og Svartsengiskerfunum. Eldey mun hafa risið úr hafi í þessum jarðeldum. Í rituðum heimildum er getið að minnsta kosti um sex eldgos í sjó undan Reykjanesi á umræddu tímabili en þarna gengur úthafshryggurinn langi á land á mótum tveggja jarðskorpufleka. Á Reykjanesi hafa fundist fjögur gjóskulög í jarðvegi, sem styður þessar frásagnir. Menn þykjast sjá þess merki í gömlum heimildum að Eldey hafi upphaflega verið landföst en ekki er hægt að fullyrða neitt í þeim efnum.

Stampagígaröðin er alls um 4 km löng og er flatarmál hraunsins 4,6 ferkílómetrar. Gaman er að ganga meðfram gírgaröðinni og skoða gígana sem eru vel aðgengilegir. Í leiðinni ætti maður endilega að rölta um sandorpið hraunið sem felur í sér ævintýralegt landslag og kynjamyndir sem birtast manni við hvert fótmál. Stampahraun er sannkallaður listigarður skúlptúra sem móðir náttúrua hefur sjálf mótað í glóandi hraunið fyrir um 800 árum. Formin eru óendanleg og í þeim má sjá alls kyns furðuverur og fígúrur gefi maður ímyndunaraflinu lausan tauminn.  Þarna getur gikkglaður ljósmyndari eytt drjúgum tíma.