Suðurnesjaperlur: Sælureitur við Háabjalla

posted in: Suðurnesjaperlur | 0

Þeir sem koma í fyrsta skipti að Háabjalla og Snorrastaðatjörnum verða oftast undrandi yfir því að finna slíka náttúruvin svo stutt frá umferðarmesta þjóðvegi landsins. Umhverfið er allt hið fegursta og minnir einna helst á smækkaða útgáfu af Þingvöllum með misgengjum og sigdæld.
Klettahamarinn Háibjalli veitir gott skjól í norðanáttinni en hann er austast af fimm misgengjum sem ganga út af  Vogastapa til suðvesturs. Rétt sunnan Háabjalla eru Snorrastaðatjarnir, kenndar við fornt býli sem fór í eyði líklega á 17. öld. Þær eru gróskumiklar og mikilvægur áningarstaður farfugla vor og haust. Snorrastaðatjarnir og Háibjalli eru á náttúruminjaskrá.
Þessi fallega náttúruparadís hefur í áratugi verið vinsælt útivistarsvæði meðal Suðurnesjamanna. Margir eiga þaðan góðar æskuminningar og hafa því sterkar taugar til svæðisins. Á árum áður fóru ungmenni oft þangað í útilegu, þar sem brugðið var á leik í lundinum og buslað í tjörnunum. Um árabil voru skátar þar með aðstöðu í skála, sem nú er horfinn. Trjálundurinn er afrakstur áratuga starfs Skógræktarfélags Suðurnesja, sem fyrir löngu síðan hefur afsannað að ekki sé hægt að rækta trjágróður á Suðurnesjum.
Nokkrum kílómetrum sunnar er eldstöð sem nefnd er Arnarsetur. Þaðan hafa runnið hraun sem kaffært hafa tjarnirnar að hluta. Úfið hraunið gefur tjörnunum sérstakan svip. Snorrastaðatjarnir og umhverfi þeirra er jarfræðilega afar áhugavert enda glöggt dæmi um misgengi og gliðnun jarðskorpunnar á sprungurein. Sprungurnar sjást vel þegar staðið er ofan á bjallanum og horft yfir víðáttumikil hraun Þráinsskjaldar, sem er ein af fornu gosdyngjunum á Reykjanesskaga.

Trjálundurinn er afrakstur áratuga starfs Skógræktarfélags Suðurnesja og undir klettahamrinum nýtur hans skjóls fyrir norðanáttinni.

Hraun mætir vatni. Horft yfir nyrstu tjörnina. Háibjalli efst uppi til vinstri.
__________________________________________________________________________________

Kvöldin eru fögur við Snorrastaðatjarnir, jafnt sumar sem haust.
______________________________________________________________________________________

Engjarós við Snorrastaðatjarnir. Gróður er fjölbreyttur á þessu svæði.
____________________________________________________________________________________