Suðurnesjaperlur: Hið víðfræga Þorbjarnarfell

posted in: Suðurnesjaperlur | 0

Þorbjarnarfell við Grindavík er örugglega meðal þekkustu fjalla landsins. Fjallið hlaut athygli allra landsmanna núna á Þorranum vegna kvikusöfnunar með tilheyrandi  landrisi lítið eitt vestan við fjallið. Þessu fylgdi nokkuð hresslileg skjálftavirkni og leist mörgum satt best að segja alls ekkert á blikuna. Eldgos í nálægð við byggðina er ekki skemmtileg tilhugsun.

Þetta bæjarfjall Grindvíkinga er nokkuð áhugavert bæði í jarðsögulegu og sögulegu tilliti. Í ljósmyndabókinni „Reykjanesskagi – náttúra og undur“ fjallaði ég í máli og myndum um þetta áhugaverða fjall sem virðist vera með eldri fjöllum á Reykjanesskaga, að minnsta kosti að hluta til. Bólstrabergið er ráðandi í bland við móberg þannig að það virðist hafa hlaðist upp á tveimur síðustu jökulskeiðum. Þorbjarnarfell, eða amk hluti þess,  hefur því hlaðist upp við eldgos undir jökli. Fjallið er 243 metra hátt yfir sjávarmáli og nokkuð auðvelt uppgöngu fyrir fólk í sæmilegu formi.

Þorbjarnarfell hefur greinilega sigið niður í miðjunni, sem einkennir útlit þess. Ástæðan er sú að fjallið stendur á misgengissprungum. Það hefur því gengið til með sprunguhreyfingum og þannig hefur orðið til feikna mikil gjá í toppi fjallsins. Þangað er gaman að koma og finna smæð sína undir himinháum hamraveggjunum. Gömul þjóðsaga tengist gjánni, sem nefnist Þjófagjá. Þar höfðust við 15 sauðaþjófar sem gerðu Grindvíkingum lífið leitt. Þjófarnir voru eltir uppi og hengdir undir Hagafelli, austan við Þorbjarnarfell. Þar undir eru tilkomumiklir klettar sem síðan eru kallaðir Gálgaklettar. Uppi á fjallinu er einnig að finna minjar frá seinni heimsstyrjöld en Bandaríkjamenn höfðu bækistöð (fjarskiptastöð) í toppgígi fjallsins.

Þorbjarnarfell séð úr suðurátt.
____________________________________________
Þegar horft er beint ofan á fjallið má glögglega sjá hversu sigið það er í miðjunni.
_________________________________________________________________________
Undir himinháum hamraveggjum Þjófagjár.
_____________________________________
Undir himinháum hamraveggjum Þjófagjár.
_________________________________________
Kampur Bandaríkjamanna uppi á Þorbirni í seinna stríði.
___________________________________________________
Braggaþyrpingin var staðsett í toppgígi fjallsins. Fyrir ofan sést í barma Þjófagjár.
____________________________________________________________________
Á fjallinu má enn sjá minjar um veru hermannanna. Þessi arinn var í skála offiséranna.
________________________________________________________________________
Greinarhöfundur skoðar myndarlegan bólstra ofarlega í fjallinu. Bólstraberg myndast í neðansjávargosum, í gosi í stöðuvötnum eða gosi undir jökli.
_____________________________________________________________________________________