Um það bil fimm kílómetra suður af Höfnum á Reykjanesi er afar áhugavert og merkilegt svæði sem hefur að geyma fjölda minja frá fyrri tíðar búsetu. Þar má finna aldagamla bæjarhóla, tóftir, leifar miðaldakirkjugarðs, garðhleðslur ýmiskonar og önnur mannvirki sem tilheyrðu bæjunum sem þarna stóðu. Það verður að teljast ótrúlegt hve lítill gaumur hefur verið gefinn að þessu svæði. Þarna gæti nefnilega verið veisla fyrir fornleifafræðinga með hlaðborði minja því ekki er loku fyrir það skotið að á svæðinu hafi verið búið allt frá landnámstíð.
Kirkja og kirkjugarður til forna
Hafnir draga nafn sitt af af tveimur bæjanna, Sandhöfn og Kirkjuhöfn. Sandhöfn, sem skiptist í Litlu og Stóru-Sandhöfn, mun hafa farið í eyði um árið 1600 og Kirkjuhöfn litlu fyrr. Þó ber heimildum ekki alveg saman hvenær nákvæmlega þessir bæir fóru í eyði, það gæti hlaupið á 50 árum til eða frá. Eins og örnefnið bendir til mun kirkja hafa verið í Kirkjuhöfn. Vitað er að hún var þar árið 1350 en talið er að hún hafi lagst af nokkru síðar. Eftir það fluttist sóknarkirkja Hafnanna að Vogi, þaðan að Kirkjuvogi um 1575 og voru þá bein flutt frá Kirkjuhöfn í Kirkjuvogsgarð. Rúst af hinum forna kirkjugarði er vel greinileg við Kirkjuhafnarhólinn.
50 hurðir á hjörum
Vestast í þessu bæjahverfi stóð bærinn Eyri (Hafnaeyri). Heimildum ber ekki saman um hvenær hann fór í eyði, ein segir árið 1770 og önnur 1830. Austast er grasi vaxinn hóll þar sem bærinn Bæli hefur staðið en um hann er lítið vitað. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru hins vegar þekkt stórbýli og helsta útræði í Höfnum. Heimildir herma að biskupsstóll hafi gert út að minnsta kosti 10 skip frá Kirkjuhöfn. Til eru heimildir um stærð Kirkjuhafnar sem segja að þar hafi verið miklar byggingar með 50 hurðum á hjörum. Hús þau er tilheyrðu Sandhöfn munu einnig hafa verið mörg og vegleg á þess tíma mælikvarða. Því hefur verið haldið fram að upphaf útflutnings á verkuðum saltfiski frá Íslandi hafi verið í Sandhöfn og Kirkjuhöfn. Eftir Reykjaneselda á 13. öld fór sandfok að herja á byggðina og það ásamt landbroti gerði út um hana að lokum.
Af sandi öldúngis eyðilagt
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er lýsing á jörðum í Hafnahreppi skrifuð árið 1703. Þar er Sandhöfn sögð eyðijörð til 50 ára og sé kóngs eign. „Nú er alt jarðarinnar land af sandi öldúngis eyðilagt og graslaust vorðið, svo óbyggjandi er,“ segir í lýsingunni. „Áður hefur þar góð verstaða verið, og gengu þá til vers mörg inntökuskip, eftir hvör að ábúandi tók undirgift. Nú er ómögulegt að hafa þar verstöðu, því að sandur fordjarfar vergögn öll og verður búðum ekki uppi haldið fyrir þakleysi. Túnið fordjarfast af sandi árlega meir og meir. Engjar eru öngvar. Hagar í lakasta máta sumar og vetur, so hjer so sem í allri sveitinni. Selstöðu hefur jörðin átt sem nú er að mestu eyðilögð fyrir sandi, og verður því valla eður ekki brúkuð, og er augljóst að snart muni hún að öngvu liði verða. Fyrir stórviðrum er mjög hætt af skaðlegu sandfjúki. Torfrista og stúnga er engin nema í sendinni jörð og það næstum ónýt“. Þannig lýsa þeir Árni og Páll aðstæðum í sveitinni, sem virðast samkvæmt þessu hafa verið fremur nöturlegar á þessum tíma.
Garðurinn langi
Árið 1996 gerðu Guðmundur Ólafsson og Sigurður Bergsteinsson fornleifakönnun á svæðinu í tengslum við fyrirhugaða byggingu mangesíumverksmiðju. Ekkert varð úr þeim framkvæmdum en eftir stendur ágæt skýrsla þeirra félaga á vegum Fornleifadeildar Þjóðminjasafns Íslands. Guðmundur og Sigurður ráðgerðu að eyða einum degi í vettvangskönnun en þeir urðu tveir því mun fleiri minjar komu í ljós en búist var við. Í skýrslunni greina þeir frá þeim mannvirkjum sem þeir fundu á svæðinu. Þar er meðal annars getið um túngarð, sem sést greinilega á loftmyndum. Lengd hans sætir undrun en þegar mælistika er sett á kort má sjá að hann er um 2km langur, að vísu ekki alveg óslitinn.
„Garðurinn liggur frá Hafnabergi til austurs og markar sennilega tún eða landamerki Eyrarbæjar og Sandhafnar til suðurs. Vestasti hluti garðsins er sokkinn í sand og að miklu leyti hruninn. Grjótdreif úr hleðslunni er á um 3 m breiðu svæði. Um 50 m frá ströndinni er um 2,5 m breitt rof í garðinn fyrir vegarslóða. Þaðan liggur hleðslan áfram til austurs. Sandur hefur lagst upp að henni beggja vegna þannig að hún er að mestu í kafi. Víða er nokkur grjótdreif og hrun úr hleðslunni, einkum að norðanverðu. Í rofabarði við vegarslóðann virtist veggjaþykktin geta hafa verið um 1 m að breidd, en þar sem sandurinn hefur safnast upp að hleðslunni hefur einfaldri og um 0,3 m breiðri steinhleðslu verið bætt ofan á vegginn. Hæð hleðslunnar ofan sands er allt að 0,5 m,“ segir í lýsingunni.
Trúlega hefur garði þessum verið ætlað að verja túnin fyrir sandfokinu, sem að lokum kaffærði hann að mestu.
Hugsanlega byggð frá landnámstíð
Þeir Guðmundir og Sigurður lýsa fjölda minja á svæðinu, s.s. fjárrétt, ýmsum tóftum og garðhleðslum, uppsátrum og vörum, fiskbyrjum og að sjálfsögðu bæjarhólunum. Telja þeir túngarðinn langa sennilega frá sama tíma og bærinn í Sandhöfn. „Hér eru því að öllum líkindum minjar sem eru a.m.k. orðnar 400 ára gamlar og þar með verndaður samkvæmt þjóðminjalögum nr 88. frá 1989. Því má bæta við að bæjarhólar hlaðast upp á löngum tíma. Miðað við umfang bæjarhólanna á þessu svæði má gera ráð fyrir byggingarskeiðum sem ná yfir margar aldir, hugsanlega allt frá upphafi landnáms,“ segir í skýrslunni. Af þeim orðum má ráða að spennandi gæti reynst fyrir fornleifafræðinga að krukka í bæjarhóla hinnar horfnu byggðar. Trúlega kæmi ýmislegt forvitnilegt í ljós. En til þess þarf auðvitað fjármagn, sem oftast er af skornum skammti þegar kemur að fornleifarannsóknum á Íslandi.
Þægileg og áhugaverð gönguferð
Gamli þjóðvegurinn lá um þetta svæði og nær Hafnabergi en nýrri vegurinn. Ekki er hægt að segja að hann sé bílfær lengur nema fyrir góða jeppa. Engin ástæða er samt til þess að þjösnast eftir slóðinni þegar hægt er að gera skemmtilega og áhugaverða gönguferð um svæðið. Við fiskeldisstöðina skammt sunnan Junkaragerðis er útskot á nýja veginum þar sem hægt er skilja bílinn eftir. Þaðan er slóð gamla vegarins fylgt. Að Eyri og til baka er gangan um það bil 6 kílómetrar. En úr því að maður er kominn það langt er ekki úr vegi að bæta smávegis við gönguna og skoða nyrsta hluta Hafnabergs og fuglalífið þar. Í heildina gæti þetta þá verið um 8-9 kílómetra þægileg ganga um áhugaverðar, fornar slóðir. Hér neðar á síðunni eru kort sem sýna staðsetninguna, auk fleiri ljósmynda frá svæðinu. Vakin er sérstök athygli á myndbandinu neðst á síðunni.
Tvær þjóðsögur
Með því að smella á tenglana hér að neðan er hægt að lesa skemmtilegar munnmælasögur frá svæðinu. Þær eru skráðar af Jón Thorarensen í Rauðskinnu hinni nýrri og birtar hér óbreyttar.
Vogmærin á Eyri
Álfkonan í Kirkjuhöfn
Upphaflega birt 9. júní 2020.