Suðurnesjaperlur: Katlahraun-Selatangar

posted in: Suðurnesjaperlur | 0

Miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur er að finna rústir gamallar verstöðvar er nefnist Selatangar. Þar má sjá rústir sjóbúða, verkunarhúsa, fiskbyrgja og fleiri mannvirkja sem bera vitni um sjósókn fyrri alda. Saga þessara rústa gæti náð um 200 ár aftur í tímann en síðast var þar haft í veri árið 1884. Og spölkorn vestan við Selatanga er stórbrotin hraunmyndun sem nefnist Katlahraun, þar sem landslag er allt mjög tröllslegt. Saman mynda þessir tveir staðir, Selatangar og Katlahraun, kynngimagnað umhverfi sem vert er og gaman að skoða.

Krýsuvíkurbændur gerðu út frá Selatöngum auk þess sem menn frá öllum landshornum lágu þar í veri. Þá mun Skálholtsstóll hafa gert þar út um tíma. Gömul sjóróðravísa gefur til kynna að vermenn hafi verið yfir 70. Þegar maður röltir um svæðið og virðir fyrir sér rústir þeirra húsakynna sem vermenn höfðust við í, getur maður gert sér í hugarlund um hversu harðneskjulegur aðbúnaðurinn hefur verið, einkum á vetrarvertíðum.  Veggir sjóbúða voru hlaðnir úr torfi og grjóti, sperrur lagðar yfir loft og torf ofaná . Meðfram veggjum voru bálkar hlaðnir úr grjóti og sváfu vermenn þar, oftast tveir og tveir saman.

Draugar og afturgöngur

Ýmsar sagnir tengjast Selatöngum.  Ein þeirra segir af draugi er kallaður var Tanga-Tómas og gekk þar ljósum logum. Var hann yfirleitt talinn meinlítill gat þó átt það til að verða mjög fyrirferðarmikill þegar sá gállinn var á honum.  Sagt er að hann sé enn á sveimi og hefur hann átt til að bregða fæti fyrir þá sem leið hafa átt um Selatanga. Fleiri sögur og sagnir tengjast þessum kynngimagnaða stað. Ein þeirra greinir frá báti sem fórst fyrir utan Selatanga og með honum sjö menn. Bátinn rak síðan á land. Var hann dreginn upp í fjöruna nokkru síðar en enginn vilda róa bátnum framar því mönnum stóð beigur af honum. Urðu vermenn og fleiri varir við afturgöngur bátsverjanna sem þarna voru á sveimi. Báturinn var loks höggvinn að mestu niður í eldivið, en áður höfðu menn oft heyrt högg og brak í honum, einkum er kvölda tók.

Hið stórbrota Katlahraun

Litlu vestar við Selatanga er Ketilinn Í Katlahrauni.  Þar er landslag allt mjög tröllslegt og tilkomumikið með tignarlegum hraunborgum, hellisskútum, hraunsveppum og fleiru forvitnilegu.

Þessi einstaka hraunmyndun er um tvö þúsund ára gömul og á uppruna sinn í Moshólum, tveimur gígum norðan við hraunið.Þunnfljótandi hraun hefur runnið út í grunna sjávarvík og þar hefur myndast gríðarstór hrauntjörn. Þessi myndun er ekkert ósvipuð þeirri er finna má í Dimmuborgum. Hraunið hefur hvellsoðið þegar það komst í snertingu við sjóinn, sem skýrir þær myndanir sem að ofan eru nefndar. Rauðglóandi kvikan hefur safnast fyrir í víkinni og yfirborð hennar storknað uns hún náði að hlaupa undan bungunni til sjávar og tæmast.

Þarna er nokkrir skútar og hellar sem vermenn á Selatöngum nýttu til ýmis konar iðju eins og nöfn þeirra benda til, t.d. Smíðahellir, Sögunarhellir og Mölunarkór sem einnig var nefndur Skessuhellir eftir skessu einni sem hér átti heimkynni, samkvæmt gamalli þjóðsögu.

Það er um að gera að gefa sér góðan tíma til að rölta um og skoða þetta magnaða svæði. Hér er einstök náttúra og forvitnileg saga sem gera Selatanga og Katlahraun óneitanlega að einum áhugaverðasta áfangastað Reykjanesskagans.

Hér hefur hellisskúti í Katlahrauni verðið gerður að fjárskjóli.
___________________________________________________________

Rústir austari sjóbúðarinnar á Selatöngum.
_____________________________________________________