Suðurnesjaperlur: Húshólmi – Forn byggð sveipuð dulúð

posted in: Suðurnesjaperlur | 0

Árið 1151 hófust eldsumbrot  í  Vesturhálsi sunnanverðum í nokkrum stuttum gígaröðum. Fljótlega einskorðaðist gosið við norðurhluta gígaraðarinnar þaðan sem meginhraunflóðið kom og rann til suðurs í sjó fram. Þetta hraun er nefnt Ögmundarhraun. Goshrinan er nefnd Krýsuvíkureldar og hefur verið viðvarandi með einhverjum hléum fram undir 1190. Nær ströndunni kvíslaðist hraunið og skildi eftir óbrennishólma þar sem gamli Krýsuvíkurbærinn stóð og heitir þar Húshólmi. 
Í Húshólma má enn sjá tóftir og önnur ummerki bæjarþyrpingar sem þarna stóð. 

Horft yfir Ögmundarhraun. Húshólmi er næstur okkur á myndinni, Óbrennishólmi fjær.
Í baksýn sést til gosstöðvanna í Vesturhálsi, sem einnig er nefndur Núpshlíðarháls.
________________________________________________________________________________________________

Búseta frá upphafi Íslandsbyggðar

Ýmislegt bendir til að í Húshólma hafi verið búið allt frá landnámstíð en ekki er vitað hvaða fólk bjó þarna. Í Landnámu segir að Þórir haustmyrkur hafi numið land í Selvogi og Krýsuvík. Kannski hefur skáli hans verið í Húshólma, hver veit?
Örnefnið Kirkjulág bendir eindregið til þess að þarna hafi staðið kirkja og eru tóftir hennar sýnilegar þar sem hraunið hefur runnið umhverfis hana.  Spölkörn austan við hana má greina hringlaga þúst sem hefur verið kirkjugarður. Í upphafi kristni á Íslandi voru kirkjugarðar þannig í laginu og má sjá leifar þeirra á nokkrum stöðum á landinu. Þá eru einnig greinilegir og áberandi þrír gamlir túngarðar og hverfa tveir þeirra inn í hraunið.  Jarðfræðingarnir Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson rannsökuðu einn þeirra  á 9. áratugnum og kom þá í ljós að garðurinn hafði verið hlaðinn áður en svokallað landnámslag féll árið 877.
Annar óbrennishólmi er nokkru vestar, sem ber reyndar þetta heiti – Óbrennishólmi.  Vottar þar fyrir fleiri minjum.  Hvort þau mannvirki hafa tilheyrt bænum í Húshólma eða ef til vill öðrum bæ, sem þá hefur algerlega horfið undir hraun, er ómögulegt að segja til um.  Að því leiðir að ekki verður sagt með vissu hversu stór hluti bæjarþyrpingarnar hefur farið undir hraun en þessar fornminjar hafa lítið sem ekkert verið rannsakaðar. Þær eru samt sem áður friðlýstar.

Einn af görðunum í Húshólma. Þessi hverfur undir hraunið fjær á myndinni. Garðurinn var hlaðinn áður en svokallað landnámslag féll árið 877. Þarna hefur því verið búið alveg frá landnámi.
__________________________________________________________________________________

Hér stóð bær. Tóftirnar eru greinilegar, umluktar þunnu hrauni. Það hefur runnið utan um húsin og að hluta til innan í þau. Með tímanum hefur efni húsanna sigið en útlínur þeirra staðið eftir, vel mótaðar í hrauninu sem umlukti þau, eins og sést glögglega á neðri myndinni. Fjær sjást tóftir kirkjunnar og ofarlega til vinstri einn garðurinn sem hverfur undir hraunið.

________________________________________________________________________________________________

Bærinn flyst um set og nafnið með

Svæðið hefur verið nefnt Gamla Krýsuvík en elstu skráðar heimildir um minjarnar eru frá byrjun 17. aldar. Hraunið hefur runnið í sjó fram og fyllt upp í víkina, hina eiginlegu Krýsuvík. Þegar komið er niður að ströndinni má glögglega sjá þar fornan sjávarkamp innan við þann sem nú er.
Eftir þetta færðist búsetan á þann stað sem við nú þekkjum sem Krýsuvík.  Margur hefur einmitt furðað sig á þessari nafngift því þar er alls engin vík. En skýringin er semsagt sú að gamla nafnið fylgdi bænum á nýjan stað. Þar varð síðan höfuðból með mörgum hjáleigum. Byggðin í Krýsuvík  var hvað blómlegust í kringum 1860 þegar búskapur var á þrettán býlum með um 70 íbúum. Upp úr aldamótum fækkaði fólki hratt og í dag er fátt sýnilegt sem minnir á þessa búsetu. Á bæjarhólnum stóð kirkja allt fram til ársins 2010 er fjögur dómgreindarlaus ungmenni báru eld að henni  í byrjun árs. Varð mikill sjónarsviptir af kirkjunni enda var hún það eina uppistandandi sem bar vitni um fyrri tíðar búsetu á þessum stað.  Á svonefndum Bæjarhól má þó enn sjá tóftir Krýsuvíkurbæjarins.

Horft yfir tóftir gamla Krýsuvíkurbæjarins á Bæjarhóli. Búseta hófst hér eftir að fólkið hörfaði frá Húshólma í Krýsuvíkureldum á 12. öld

Krýsuvíkurkirkja var það eina uppistandandi sem bar vitni um fyrri tíðar búsetu á þessum stað.
Í upphafi árs 2010 brann hún til kaldra kola þegar eldur var borinn að henni.
_______________________________________________________________________________________________

Hver var þessi Ögmundur?

Örnefnið Ögmundarhraun er tengt gamalli þjóðsögu og kennt við berserk nokkurn, Ögmund að nafni, sem Krýsuvíkurbóndi átti að hafa fengið til að ryðja veg í gegnum illfært hraunið. Að launum átti Ögmundur að fá að eiga dóttir bóndans, sem var nú ekki heiðarlegri í þessum viðskiptum en svo að hann sat fyrir Ögmundi og drap hann að verki loknu. Var hann síðan dysjaður þar sem síðan heitir Ögmundardys. Vegurinn gegnum hraunið þótti frekar erfiður yfirferðar eins og þessi gamla staka gefur til kynna:

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Og úr því við erum að tala um gamlar þjóðsögur þá er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar að finna eina slíka af smaladreng sem á að hafa bjargast með undraverðum hætti undan hraunflóðinu: 
„Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg, en lagðist svo af að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fal sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á, segja sumir. Það heitir síðan Óbrennishólmi er hann var. Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó, en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn, en nálega var ófært þangað þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar.”

________________________________________________________________________________________________________________________________

Leiðrétting: Landnámslagið féll árið 877 en ekki 870 eins og misritaðist í upphaflegri útgáfu greinarinnar. Þetta hefur verið leiðrétt.


Upphaflega birt 11. maí 2019.