Suðurnesjaperlur: Hið götótta Hafnaberg

posted in: Suðurnesjaperlur | 0

Hafnarberg er áhugaverður áfangastaður þeirra sem vilja skoða fuglalíf og hressa andann með hæfilega langri gönguferð, fersku sjávarlofti og frábæru útsýni yfir hafið.
Um það bil 4km suður af Höfnum er útskot á veginum þar sem hægt er að leggja bílnum.  Við bílastæðið er upplýsingaskilti um bergið og fuglalífið. Hafnaberg hentar afar vel til fuglaskoðunar vegna þess hve vogskorið það er. Talið er að um 6000 pör verpi í berginu. Helstu tegundir eru rita, langvía, fýlll og álka.

Á þessari mynd sést glögglega hversu götótt bergið er.
_________________________________________________

Göngustígurinn frá bílastæðinu að berginu er um 2,5km langur. Gengið er yfir hraun hinnar fornu gosdyngju sem kennd er við Sandfell. Hún er ein af mikilvirkustu gosdyngjum Reykjanesskagans sem voru virkastar á fyrstu árþúsundum Nútíma eftir að ísaldarjöklarnir hörfuðu fyrir um 10 þúsund árum. Hraunið í berginu hefur samt ekki runnið frá aðalgígnum heldur frá Berghól, sem er stutt frá berginu. Hraunið frá honum er alveg sömu gerðar og frá Sandfellsdyngjunni svo segja má að hraunið í berginu tilheyri henni og eingöngu hafi verið um tilfærslu á gosopi að ræða. Gönguleiðin er mjög sandorpin og getur gangan því tekið aðeins í rass og lærvöðva, sem er bara hið besta mál því hver vill ekki hafa stinna og stælta vöða á þessum svæðum líkamans?

Ótal sjávarhellar raða sér eftir öllu berginu og bera vitni um ægikraft haföldunnar sem grefur sig inn í bergið þegar veik gjalllög láta undan. Af þeim sökum er bergið orðið afar götótt, sem sést reyndar mun betur frá sjó. Gaman er að ganga meðfram berginu og skoða fallega gatgletta en betra er að gæta vel að sér þar sem bergið getur verið ótraust fram á brúnum. Mælt er með síðdegisgöngu þegar sólin skín á bergið.

Fyrir gönguglaða er um að gera að ganga meðfram Hafnabergi alla leið út í Stóru-Sandvík. Ferðafélagar gætu þá farið á tveimur bílum og skilið annan eftir í Sandvík til að fara á honum til baka á upphafsstað í lok göngunnar.