Suðurnesjaperlur: Vogavík-Hólmabúðir

posted in: Suðurnesjaperlur | 0

Undir Vogastapa austanverðum, skammt frá Vogum á Vatnsleysuströnd, er lítið undirlendi sem hefur að geyma forvitnilegar minjar frá fyrri tíðar búsetu og atvinnuháttum. Þetta er einn af þessum stöðum á Reykjanesskaga sem fáir hafa gefið gaum, þrátt fyrir að vera mjög áhugaverður.

Þarna er að finna tóftir bæja, sem voru bæði gras- og útvegsbýli og í hólma skammt þar undan eru vel greinilegar rústir gamallar verstöðvar en útræði var stundað frá þessum stað um aldir og heitir þar Hólmabúðir. Útgerð frá Hólmabúðum mun hafa verið í miklum blóma um miðja 19. öldina og voru þá allt að 18 skip gerð út þaðan. Má ætla að um 140-150 manns hafi verið þar á vetrarvertíðinni. Enn eru leifar frá þessari mannvist vel sjáanlegar, ekki síst þegar þær eru skoðaðar ofan af Stapanum eða úr lofti en þessar myndir tók ég með dróna þann 10. mars síðastliðinn. Gera má ráð fyrir að sjávarrót og landeyðing hafi eytt hluta þeirrar merkilegu sögu sem þarna er að finna.
Um þessa búsetu er m.a. getið í bókinni „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ eftir Guðmund Björgvin Jónsson sem kom út árið 1987. Guðmundur Björgvin stóð sjálfur að þeirri útgáfu og var tíður gestur hjá okkur í Stapaprenti meðan verkið var í vinnslu. Alltaf var gaman að hitta Guðmund og heyra sögur af Vatnsleysuströndinni enda var hann afar skemmtilegur náungi og gríðarlega fróður um söguefnið. Hjá honum heyrði ég fyrst af Hólmabúðum og bæjunum undir Stapanum.

Þá er vert að minnast á bókina „Strönd og vogar“ eftir Árna Óla sem kom út 1961. Bókin sú er uppfull af fróðleik af Vatnsleysuströndinni. Þar skrifar Árni m.a. um Vogastapann og Gullkistuna eins og fiskimiðin undir Stapanum voru nefnd en þau þóttu bera af öðrum miðum hvað fengsæld varðar. Einn kafli bókarinnar fjallar um gömlu veiðistöðina í Hólminum og bæina undir Stapanum. Er m.a. minnst á prammann sem stendur hálfur upp á einu skerinu og sjá má á meðfylgjandi myndum:
„Og á skeri þar rétt fyrir innan er ferlíki nokkurt, hálft í sjó og hálft uppi á skerinu. Þetta er einn af innrásarprámum þeim, er bandamenn smíðuðu til að flytja á herlið sitt til Frakklands 1944. En hvernig stendur á því, að slíkt fartæki er komið hér inn á Vogavík? Sú er saga til þess, að Óskar heitinn Halldórsson keypti  nokkra af þessum stóru prjámum eftir stríðið og lét draga þá hingað. Síðan hafa þeir allir, nema þessi eini, verið notaðir til hafnargerðar á þann hátt, að þeir hafa verið fylltir með steinsteypu og síðan sökkt sem steinkerjum, þar sem hafnargarðar hafa verið gerðir.“

Um mannvirkin í Hólminum segir Árni meðal annars: „Má þar sjá leifar af miklum mannvirkjum. Fyrst er þar grunnur undan stóru húsi, sem líklega hefur verið fisktökuhús og íbúðarhús umsónarmannsins, sem þarna var. Þetta hús hefir verið um 15 metrar á lengd og breitt að því skapi. Þar hjá er grunnur undan öðru húsi, og þar mun hafa verið salthúsið, sem tók 2000 tunnur af salti. Steinstéttir eru umhverfis þessi hús, en hvort það hafa verið gangstéttir, eða ætlaðar til að breiða á þær fisk, verður ekki sagt.“

Á meðal þeirra sem gerðu út frá Hólminum var Haraldur Böðvarsson, einn af kunnustu útgerðarmönnunum við Faxaflóann á sínum tíma. Eftir 1880 fer að draga úr útgerð frá staðnum og um aldamótin munu húsin, sem að ofan eru nefnd, hafa verið rifin. Árni Óla segir einnig frá bæjunum á undirlendinu meðfram Stapanum en þeir hétu Brekka og Stapabúð. Síðarnefnda býlið mun hafa farið í eyði eftir 1896. Síðasti ábúandinn á Brekku bjó þar fram til 1930 en hafði þó býlið undir talsvert lengur.

.