Dularfullu dauðsföllin á Vatnsleysuströnd

posted in: Suðurnesjaperlur | 0

-sögubrot og svipmyndir af Ströndinni.

Vatnsleysuströnd býr yfir mikilli sögu genginna kynslóða. Meðfram ströndinni blasa hvarvetna við minjar um þessa sögu; mannvirki, tóftir, gömul landbúnaðartæki, sem standa eins og minnisvarðar um liðna tíð og fleira úr merkilegri byggðasögu þar sem sjósókn og landbúnaður var lifibrauð íbúa um aldir. Hver einasti bóndi sveitarinnar var jafnframt útvegsmaður og margt aðkomufólk var þar á vertíðum. Strandarmenn voru framfarasinnaðir athafnamenn og brautryðjendur á ýmsan hátt.  Ekki ætla ég samt að gera útgerðar- og landbúnarsögu Vatnsleysustrandar greinargóð skil í þessum pistli heldur rifja upp undarleg atvik sem urðu á Ströndinni um miðja 18. öldina þar sem fjöldi manns hné niður örendur, fyrirvaralaust og án þess að hægt væri að segja til um dánarörsök. Í þann mund sem þeir hnigu niður ráka þeir upp mikil óhljóð  – náhljóð eða nágaul eins og fólk kallaði þau. Eins og vænta mátti, vöktu þessi dularfullu dauðsföll mikla skelfingu og nærri lá að fólk flýði byggðalagið af þeim sökum.

Ráku skyndilega upp hátt hljóð og dóu samstundis

Um þessa atburði er getið í hinni merku Ferðabók Eggerts og Bjarna en þar er eftirfarandi frásögn:
„Veturinn 1753-54, báðum megin hátíða, urðu 3 eða 4 menn bráðdauðir í nánd við Landakot. Veturinn eftir dóu enn fleiri, og sömuleiðis næsta vetur þar á eftir, unz alls voru dánir 19 menn.
Fávís alþýða á þeim slóðum eignaði þetta áhrifum illra anda og er það ekki láandi, þar sem slíkt er í ósamræmi við kenningar heilagrar ritningar, og sá skilningur, sem menn hafa á náttúrunni, gat ekki heldur brugðið neinu ljósi yfir atburðina. Varð fólkið svo skelft við atburði þessa, að nærri lá að það flýði byggðalagið. Menn trúðu því, að þetta væri refsidómur, sem guð hefði leyft einhverjum illum anda að framkvæma. Að lokum létu menn þó skipast við fortölur og biðu í sveitinni enn eitt ár til reynslu en voru þó skelfdir og óttuðust daglega bráðan dauða. En þann vetur dó enginn, og ekki síðan. Eigi eru heldur neinar sagnir af nokkrum slíkum manndauða þar nokkru sinni fyrr.
Menn þeir, er létust, voru allir fullkomnlega heilbrigðir og á gangi er þeir dóu. Varð það með þeim hætti, að þeir ráku skyndilega upp hátt hljóð, og dóu samstundis. Öll þessi bráðu dauðsföll bar að höndum stytztu og dimmustu daga ársins, um vetarsólhvörf, en þó ætíð að degi til. Flestir þeir, er dóu svo skyndilega, voru skyldir, aðallega fjórir bræður og börn þeirra. Tveir þessara bræðra voru einu sinni saman á gangi. Þá varð annar þeirra allt í einu bráðkvaddur, en hinn kenndi sér einskis meins. Allir þeir, sem dóu, voru ráðvandir menn og hæglátir í framferði sínu, og hjá þeim hafði ekki gætt þunglyndis né hugsýki.
Við könnuðum staðinn sumarið 1755 og sáum þá, að landið er mjög holótt. Okkur var tjáð, að það væri venjulega snjólaust, eins og títt er í hraunum, og einnig að manndauðinn hefði jafnt orðið, hvort sem snjór var á jörð eða ekki. Jörð er hér öll brunnin með fjölda af sprungum og gjótum, og hugðum við að eiturgufur mundi leggja þar upp úr jörð og hefði þær reynzt þessu sinni kraftmeiri en endranær, af því að allflest uppgönguaugun hafi verið lokuð af ísi og snjó“.

Landakot á Vatnsleysuströnd var eitt af höfuðbólum Vatnsleysustrandarhrepps. Þaðan var margt merkisfólk komið, m.a. Margrét Guðnadóttir, veirufræðingur og prófessor við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar skiluðu niðurstöðum sem vöktu eftirtekt vísindasamfélagsins á alþjóðavísu og hlaut hún margar viðurkenningar fyrir störf sín. Margrét er amma tónskáldsins Hildar Guðnadóttur.
_____________________________________________________________________________________

Banvænt loft úr iðrum jarðar eða óæti?

Árið 1961 kom út bókin Strönd og Vogar eftir Árna Óla en þar er að finna margvíslegan fróðleik úr sögu Vatnsleysustrandar. Í bókinni getur hann um þessi dularfullu dauðsföll og rifjar upp frásögn Eggerts og Bjarna. Ekki segist Árni leggja neinn dóm á það, hvort sú tilgáta sér rétt að manndauðinn hafi stafað af banvænu lofti er streymt hafi upp úr hraungjótum en ýmislegt annað sé einkennilegt við þessa frásögn.
„Í annálum er þess getið, að 9 menn hafi orðið bráðkvaddir á Vatnsleysuströnd á þessum árum. Sennilega er sú tala of lág, en réttari hin, sem stendur í Ferðabókinni og höfð er eftir mönnum þar á staðnum, nema um misritun eða pentvillu sé að ræða. En hitt er rangt, að menn hafi ekki orðið  bráðdauðir þar áður. Samkvæmt annálum hafa 4 menn orðið bráðkvaddir þar árið 1699, tveir árið 1700 og árið 1702 er sagt að 30 menn hafi orðið bráðkvaddir á Suðurnesjum og hafi sumir þeirra eflaust verið á Vatnsleysuströnd“, segir Árni Óla meðal annars texta bókarinnar.


Árni getur þess að á þessum árum hafi verið hin mestu harðindi. Vetur voru harðir, fólk á vergangi og margt dó af hungri og hallæri. Vitnar hann í annála sem greindu frá þessum hörmungum í hinu harðbýla landi: miklar ógæftir, bjargræðisbrestur stór og fólk reyndi að lifa á því sem hendi var næst; fjörugrösum, þangi og misjöfnu. Fundist hafi þeir, sem átu hesta, hunda og hrafna. Og þegar ekki vildi betur til reyndi fólk að halda í sér lífi með því að leggja sér til munns hey, skinn og steiktar skóbætur. Þetta nöturlega ástand hafi varað lengi og lýsir hann í textanum nokkrum harðindaárum fram til ársins 1754.
„Á þessu má sjá að ástandið hefir upp úr miðri öldinni verið svipað og það sem var um aldamótin. Má því vera, að einhver óátan, sem menn lögðu sér til munns hafi valdið því, að þeir urðu bráðkvaddir,“ skrifar Árni. Nefnir hann í því samhengi athyglisverða frásögn í Fitjaannáli frá árinu 1699 um fjóra menn sem urði bráðkvaddir í Trékyllisvík. Í þeirri sveit hafi menn oft orðið bráðkvaddir. „En áður en einhver varð bráðkvaddur, heyrðist ógnarlegt hljóð, svo fjöllin tóku eftir, og kölluðu þeir það náhljóð eða nágaul.
Nú er þess getið í Ferðabókinni, að allir þeir, sem urði bráðkvaddir á Vatnsleysuströnd, hafi rekið upp hátt hljóð áður en þeir hnigu niður. Hér er sýnilega um nákvæmlega sams konar fyrirbrigði að ræða. Í Trékyllisvík hrundi fólk niður á þennan hátt um langt skeið, og var af sumum kennt, að þeir hefði etið nýjan hákarl. Ekkert er getið um hákarlsát á Vatnsleysuströnd, en þó eru heimildir fyrir því að bændur þar hafi veitt hákarl“, segir Árni að endingu.

Undir Stapanum má sjá minjar verðstöðvarinnar Hólmabúða. Var þar blómleg útgerð um miðja 19. öldina. Einnig má sjá þar tóftir bæjanna sem stóðu undir Stapanum. Nánar er fjallð um sögu Hólmabúða í annarri grein hér á vefnum.
Atlagerðistangi og vitinn sem við hann er kenndur.
____________________________________________________
Horft yfir strönd Brunnastaðahverfis. Aðgrunnt er á þessum slóðum og aðstæður góðar fyrir varir og lendingar fyrri tíðar sjósóknar.
_________________________________________________________________
Horft yfir Stapann í átt til Voga. Undan Stapanum voru löngum góð fiskimið.
________________________________________________________________
Grunnur vindmylluhúss í Auðnalandi. Athafnamaðurinn Stefán Sigurfinnson á Auðnum stofnaði samtök meðal hreppsbúa um byggingu vindmyllunnar 1918-19. Átti hún að mala þurrkuð bein úr sjávarafurðum til skepnufóðurs. Rekstur beinamyllunnar gekk ekki eins og vonast var eftir, bilanir voru all tíðar og viðhald dýrt auk þess sem hún malaði of gróft. Var hún því aflögð aðeins tveimur eða þremur árum eftir að hún var reist. En hús hennar stendur enn sem vitnisburður um stórhuga athafnafólk Strandarinnar. Keðjurnar sem héldu mylluspöðunum hanga þar ennþá.
______________________________________________________________
Kálfatjarnarkirkja. Núverandi kirkja var vígð í júní 1893 en kirkja hefur líklega verið á Kálfatjörn frá upphafi byggðar. Hennar er getið í kirknatali Páls biskups frá 1200 og var hún Péturskirkja í kaþólskri tíð. Kálfatjanarkirkja þykir sannkölluð völundarsmíð og er hún friðuð.
______________________________________________________________
Horft yfir ströndina að Kálfatjörn. Keilir og Reykjanesskagafjöll í fjarska.
______________________________________________________
Meðfram ströndum Vatnsleysustrandar má hvarvetna sjá minjar um sjósókn fyrri tíðar.
____________________________________________________________

Upphaflega birt 21. október 2021.