Suðurnesjaperlur: Á slóðum útilegumanna

posted in: Suðurnesjaperlur | 0

Fyrr á öldum stóð íbúum landsins stuggur af óbyggðunum og þangað fór enginn nema af brýnni nauðsyn. Þjóðtrúin átti sér sterkar rætur í vitund þjóðarinnar og samkvæmt henni gat alls kyns utangarðs illþýði orðið á vegi manns, hvort sem það var þessa heims eða annars. Talið var að í leyndum dölum inn á milli jökla byggju útilegumenn, jafnvel heil samfélög þeirra.  Slæmar heimtur á haustin ýttu undir þessar sögusagnir og margar þjóðsögur greina frá tilvist útilegumanna og samskiptum þeirra við byggðafólk. Frægustu útlagar Íslands eru án efa Fjalla-Eyvindur og Halla og eru ýmis örnefni við þau kennd sem og annað utangarðsfólk sem leitaði skjóls í óbyggðum eftir að hafa komist í kast við yfirvaldið. Suðurnesin voru ekki alveg laus við fyrri alda útilegumenn þó ekki fari miklum sögum af þeim. Eitthvað koma þeir við sögu samt og jafnvel má greina ummerki eftir tilvist þeirra ef betur er að gáð.

Útilegumannabyggð í Sundvörðuhrauni?

Í Sundvörðuhrauni, skammt frá Eldvörpum um 5 km frá Grindavík, er þyrping hlaðinna byrgja sem gætu hafa hýst samfélag útilegumanna. Þau fundust fyrir tilviljun árið 1872, vel falin þar sem þau í fjarlægð renna saman við hraunjaðarinn og greinilega aldagömul. Ekki hafa fundist neinar heimildir um þessi byrgi en þau hafa verið nefnt „Tyrkjabyrgin“ því helsta kenningin fyrir tilvist þeirra er sú að þorpsbúar í Grindavík hafi hlaðið þau til að nota sem felustað ef vart yrði við „Tyrkina“ sem vöktu skelfingu og ógn við íbúanna eftir að þeir gerðu strandhögg sumarið 1627. Fóru þeir um ránshendi og höfðu fólk á brott með sér. Ýmsir fræðimenn hafa skoðað þessi byrgi og velt vöngum yfir tilurð þeirra, menn eins og Þorvaldur Thoroddsen 1883, Brynjúlfur Jónsson 1903, Jóhann Briem 1950 og fleiri. Þeir virðast á einu máli um að þarna hafi einhverjir falið sig eða ætlað að fela sig. Hins vegar er ekkert hægt að segja um það með vissu hvort það hafi verið útilegumenn á flótta undan réttvísinni eða óttaslegnir íbúar undan erlendum ræningjum. Hvorutveggja er eiginlega jafn sennilegt því gamlar sagnir greina frá útilegumönnum á þessum slóðum, samanber þjóðsöguna af hópi útilegumanna sem áttu að hafa haldið til í hinnu miklu gjá uppi á Þorbjarnarfelli og var síðan við þá kennd, nefnd Þjófagjá. Stálu þeir fé af Grindvíkingum og gerðu þeim lífið leitt. Sauðaþjófarnir náðust og voru, samkvæmt sögunni, hengdir í klettum undir Hagafelli, austan Þorbjarnarfells og heita þar síðan Gálgaklettar. Nefnd hafa verið fleiri dæmi en Tyrkjaránið sem tilefni til að felast, t.d. bardagi Þjóðverja og Englendinga í Grindavík 1532 og þjóðsagan um óaldaflokk á Reykjanesskaga sem kallaðir voru Junkarar.

Hluti byrgjanna í Sundvörðuhrauni. Þarna hafa einhverjir falið sig eða ætlað að fela sig.
___________________________________________________________________

Vel valin staðsetning

Ómar Ragnarsson greindi frá þessum byrgjum og lýsti þeim í Stikluþætti árið 1988. Í þættinum velti hann því fyrir sér hvort þarna hafi mögulega verið útilegumannabyggð. Ekki sé líklegt að þarna hafi verið haft í seli því í mosavöxnu hrauninu er varla stingandi strá að bíta fyrir búsmala. Eitt byrgið vakti sérstaka athygli Ómars en það er þrískipt þannig að þeir sem í því dvöldu munu hafa haft gott útsýni á þrjá vegu, hugsanlega til að ekki væri hægt að koma þeim að óvörum. Björn Þorsteinsson, prófessor í sagnfræði, lýsir byrgjunum í blaðagrein árið 1950 og finnst þetta „þríbýli“ einkar forvitnilegt en hann segir meðal annars: „Þessar tættur eru þær langmerkustu sinnar tegundar, sem fundizt hafa, og sumar þeirra svo kyndugar, að engum getum er hægt að leiða að því, til hvers þær hafa verið notaðar. Eitt af þessum furðuverkum er rúst, sem minnir einna helzt á skýlin á áfangastöðum strætisvagnanna. Þetta eru þrjár skeifulaga tættur, sem snúa göflunum saman, en um 120 gráða horn myndast milli opanna“.
Ómar vekur athygli á því að gluggarnir vísa alltaf yfir að öðru byrgi, hugsanlega með tilliti til merkjasendinga.  Stærsta byrgið er í kvos við hraunjaðarinn og betur falið en önnur. Úr því hefur verið hægt að sjá milli allra byrgjanna. Uppi á hraunbrúninni er svo byrgi þar sem gæti hafa verið varðstaða enda sést þaðan vel til allra átta. Ómar telur að byrgjunum hafi verið dreift um svæðið svo ekki væri hægt að koma öllum að óvörum í einu og fólk gæti flúið inn í úfið hraunið þar sem auðvelt var að felast.

Útilegumenn fara ránshendi á Vatnsleysuströnd

Til eru heimildir um þrjá útilegumenn á Suðurnesjum laust eftir aldamótin 1700. Þá var mikið hallæri í landinu eftir langvarandi ótíð, aflabrest, fjárfelli og harðindi. Svarf mjög að fólki og margir féllu úr hungri og hor. Við slíkt bjargarleysi og eymdarástand  fór margt fólk á vergang og  reyndu sumir að halda í sér líftórunni með stuldum. Einn þeirra var Jón Þórðarson í Eystri-Hreppi. Hafði hann orðið uppvís að þjófnaði og verið strýktur og brennimerktur af þeim sökum. Á allraheilagramessu 1702 tók hann sig upp og fór á vergang. Slóst í för með honum unglingspiltur, Gísli Oddson að nafni. Á flakki um sveitir Borgarfjarðar varð Jón Þorláksson úr Landeyjum á vegi þeirra. Ákváðu þeir að halda hópinn og leita sér fanga með stuldum, ef ekki vildi betur til. Fara þeir stelandi suður um Hvalfjarðarströnd, Kjós og Mosfellssveit og alla leið suður á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast frá Jóni Árnasyni í Flekkuvík en áður höfðu þeir farið ránshendi á 14 bæjum á leið sinni. Frá Jóni stálu þeir 8 hákarlalykkjum, ýmsu matarkyns og hálstrefli. Með þennan feng, til viðbótar við þann sem þeir höfðu áður stolið, héldu þeir upp um heiði og hreiðruðu um sig í hellisskúta við Selsvelli skammt frá Trölladyngju, ákveðnir í því að leggjast út og lifa af stuldum. Komið var vor og fé um allan afréttinn og munu þeir eflaust hafa hugsað sér gott til glóðarinnar hvað það varðar. Á þeim dögum voru Selsvellir í alfaraleið og ekki er ólíklegt að þeir hafi valið þessa staðsetningu til að eiga hægara með að sitja fyrir þeim sem leið áttu um svæðið.

Við forna tóft á Selsvöllum sunnan Trölladyngju. Þarna var áður alfaraleið og urðu byggðamenn fljótt varir við þjófanna sem farið höfðu ránshendi á Vatnsleysuströnd.
______________________________________________________________

Útilegumannabæli í helli

Árni Óla greinir frá afdrifum þessa félagsskapar í bókinni Frásagnir frá árinu 1955 og við grípum hér niður í frásögn hans:
„Ekki höfðu þeir hafzt lengi við þarna, er Hallur Sigmundsson, bóndi á Ísólfsskála varð þeirra var. Þótti honum þetta illir gestir og ekki tilhlökkunarefni að hafa þá í nábýli við sig. Ekki tók hann þó það ráð að segja til þeirra, heldur fór á fund þeirra og átaldi þá fyrir að hafa sezt þarna að. Kallaði hann það hið mesta óráð fyrir þá, því að byggðamenn mundu brátt verða þeirra varir og veita þeim aðgöngu. En þar sem hann var einn, en þeir þrír, mun honum ekki hafa litizt ráðlegt að hafa í hótunum við þá. Skildi svo með þeim óhappalaust.
Þeim útilegumönnum mun nú ekki hafa litizt á að vera þarna lengur, því vel gat svo farið, að Hallur vísaði á felustað þeirra. Tóku þeir sig því upp og fluttu sig lengra norður með fjallinu og settust að í helli, sem var skammt frá Hvernum eina, en hann er í hrauninu milli Selsvalla og Höskuldarvalla, eða vestur af Trölladyngju. Var hellir þessir betri en hinn fyrri, en skammt frá alfaravegi sem hinn. Vatn er þarna ekkert, og hafa þeir því annaðhvort orðið að sækja það norður í Sog eða þá suður á Selsvöllu. Lítið hefir og verið þarna um eldsneyti, varla annað en mosi, en vera má, að þeir hafi soðið mat sinn við hverahita, því að ýmsir hverir eru á þessum slóðum“.

Hauskúpa rollu ofan á veggjarbroti á Selsvöllum. Höfðu þjófarnir rænt þremur sauðum
í afréttinum er til þeirra náðist.
__________________________________________________________


Jón í Flekkuvík safnar liði

„Einn góðan veðurdag, skömmu eftir að þeir höfðu sezt þarna að, fór um veginn ferðamaður austan úr Flóa í Árnessýslu, er Bárður hét Gunnarsson. Átti hann sér einskis ills von og vissi ekki fyrri til en þrír stigamenn settust að honum. Rændu þeir af honum tveimur ljáum, hettu, vetrungsskinni, buxum, sjóskóm, fernum skæðum og einhverju fleira. Komst Bárður svo frá þeim slyppur og snauður.
Þrjár vikur voru útilegumennirnir þarna og rændu auk þessa á þeim tíma þremur sauðum til matar sér.
Sjálfsagt hefur Bárður ekki sagt sínar farir sléttar, er hann kom til mannabyggða, því að brátt fréttist það, hverjir óaldamenn voru komnir þar í sveit. Jón í Flekkuvík, sem fyrstur hafði orðið fyrir barðinu á þeim, tók sér þá fyrir hendur að safna liði og veita þeim aðför. Urðu þeir tólf saman og höfðu tvær byssur og eitthvað fleira vopna. Var þetta viku fyrir Alþingi. Fór nú þessi hópur til fjalla og kom að hellinum svo að útilegumenn voru þar allir inni. Jón skoraði á þá til útgöngu og að gefast upp en þeir svöruðu engu. Þá greip Jón til byssu sinnar og kallaði hátt, að hann skyldu skjóta inn í hellinn. Gerði hann það til að hræða þá og láta þá halda að allir væri þeir vopnaðir byssum, þótt byssurnar væru ekki nema tvær. Skaut svo Jón inn í hellinn og hæfði hettuna á höfði Jóns Þorlákssonar, svo að hún fauk af honum, en manninn sakaði ekki. Þá guggnuðu þeir útilegumenn, er þeir sáu hver alvara var hér á ferðum, og gáfust upp. Voru þeir næst fluttir til Bessastaða“.

Göngufólk á ferð um Selsvelli, hvar útilegumenn höfðust við.
____________________________________________________________

Henging og hýðing

Samkvæmt frásögn Árna Óla var þingað í málum útilegumannanna þriggja í Kópavogi en daginn áður en dómur var upp kveðinn tókst Jóni Þorkelssyni að brjótast úr járnum á Bessastöðum. Náðist hann aftur. Dómur var kveðinn upp yfir þeim hinn 6. júlí og voru þeir fluttir til Alþingis þar sem mál þeirra var tekið fyrir þann 11. júlí. Voru þeir Jónarnir báðir dæmdir til hengingar en sökum ungs aldurs var lífi Gísla Oddsonar þyrmt. Hann var samt dæmdur til hýðingar, „að næst gengi lífi hans og sendast síðan á sína sveit og þar reynt að halda honum að vinnu“. Það var svo hinn 13. júlí 1703 sem dóminum var fullnægt á Þingvöllum. Auk þess var einn ógæfumaður úr Borgarfirði til látinn dingla í gálganum fyrir sömu sakargiftir og hinir tveir.
„Þetta voru dæmdir óbótamenn, en í raun réttri voru þeir píslarvottar þjóðar sinnar“, skrifar Árni. „Íslendingar eru ekki þjófar né óbótamenn að eðlisfari. En vegna þess að þjóðin hafði verið svipt öllu frelsi af einræðisstjórn, sem hugsaði um það eitt að hafa sem allra mest upp úr þegnunum, eins og allra einræðisstjórna er siður, var svo komið í þessu fagra landi, að fólkið hrundi niður úr hungri. En þeir, sem ekki vildu verða hungurmorða og fóru að dæmi tófunnar að bjarga sér eins og best gekk, voru gripnir og hengdir. Og þennan fagra morgun, er sól skein á hauður og haf til sannindamerkis um, að Ísland væri landa bezt, kvöddu þeir „drengurinn“ úr Borgarfirði og útilegumennirnir tveir af Reykjanesi sitt auma líf, hangandi í gálgum á helgistað þjóðarinnar til merkis um þá óstjórn, sem hafði komið Íslandi á kaldan klaka.
En þriðji útilegumaðurinn, unglingurinn innan við tvítugt, var sendur hálfdauður austur á sína sveit og hefir sjálfsagt ekki þótt þar neinn auðfúsugestur“, skrifar Árni Óla að lokum.

Í helli einum í Hrútagjárdyngjuhrauni fannst þetta hlaðna hýsi og heitir hellirinn því Húshellir. Ekki er ósennilegt að þarna hafi útilegumenn hlaðið sér íverustað. Það sem rennir stoðum undir þá tilgátu eru bein í hellinum, bæði kindabein og stórgripabein. Þau síðarnefndu gætu verið af hreindýri sem gengu villt um Reykjanesskagann fyrir um 250 árum síðan.
Beinin í Húshelli.
__________________________
Gálgaklettar, heita þessi björg undir Hagafelli austan Þorbjarnarfells, skammt norðan Grindavíkur. Örnefni þetta er að víða um landið og bendir til að á þeim stöðum hafi lögbrjótar fyrri alda verið látnir gjalda gjörða sinna. Gálgi með hengingarsnöru var settur milli klettanna þar sem þjófar og aðrir misindismenn voru hengdir. Sagan segir að einmitt þarna hafi 15 sauðaþjófar verið hengdir en þeir höfðust við í gjánni uppi á Þorbjarnarfelli, sem síðan er nefnd Þjófagjá. Eitt sinn er þeir fóru til Baðsvalla til að baða sig náðu byggðamenn til þeirra því bóndasonurinn á Hrauni, sem slegist hafði í lið með þjófunum á fölskum forsendum, batt föt þeirra saman og lét byggðamenn vita.
Í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli.
___________________________________

Upphaflega birt 23. júní 2020.