Vanmetin náttúra Reykjanesskagans

posted in: Reykjanesskagi | 0

 

„Elli, hefurðu ekkert farið út fyrir Reykjanesskagann í sumar,“ spurði góður vinur minn nýlega.

„Nei, ég þarf þess ekki,“ svaraði ég. „Á Reykjanesskaga finnurðu nefnilega allt sem þú finnur annars staðar í náttúru Íslands – nema jökla,“ bætti ég við.

Vestur á Snæfellsnesi er svæði sem þótti svo fallegt og merkilegt að ákveðið var að stofna þar þjóðgarð. Á Reykjanesskaga er allt sem þú finnur í þessum þjóðgarði – nema jökull.
Þótt enginn sé jökullinn er Reykjanesskaginn samt afar sérstakur jarðfræðilega þar sem flekaskilin eru sýnileg á þurru landi með þeim ummerkjum eldsumbrota er fylgja þeim. Hvarvetna blasa við ummerki eldvirkninnar og flest eru þau vel aðgengileg, spölkorn frá byggð. Eldborgir, gígaraðir, hverasvæði, hraun frá ýmsum tímum og áhugaverðar móbergsmyndanir, svo eitthvað sé nefnt. Þegar hópur frá National Geographic skoðaði Reykjanesskagann fyrir nokkrum árum átti fólkið varla til orð yfir það hversu magnað svæðið var í þeirra augum. „Það er eins og þetta hafi allt orðið til í gær,“ sögðu þau forviða. Allt eru þetta ungar jarðmyndanir á tímakvarða jarðsögunnar og jarðfræðilega er Reykjanesskaginn eins og opin bók.

Samt dettur engum í hug að vernda þetta neitt sérstaklega.

Við flokkun í rammaáætlun hefur verið farið algjörlega eftir óskalista orkufyrirtækjanna. Sú framtíðarsýn sem þar birtist felur í sér nánast samfellda röð jarðvarmavirkjana frá Reykjanestá að Þingvallavatni. Af þeim 19 svæðum skagans sem fjallað hefur verið um í rammaáætlun hafa einungis þrjú verið sett í verndarflokk. Aðeins þrjú af nítján.

Meðfylgjandi mynd er af Arnarvatni á Sveifluhálsi. Þetta er forn eldgígur og þegar vatnið er lygnt sést vel ofan í gíginn, eins og myndin ber með sér.
HS Orka vill virkja Krýsuvíkursvæðið. Þá verður farið með háspennustreng yfir hálsinn hér fram hjá vatninu, samkvæmt tillögu Landsnets.

Á Sveifluhálsi og víðar á Reykjanesskaganum getur maður upplifað hálendislandslag, ósnortin víðerni og öræfakyrrð þrátt fyrir að vera staddur á þéttbýlasta horni landsins. Í þessu felast verðmæti – auðlind til framtíðar.

Næst þegar þú heyrir talað um „auðlindagarð“ hafðu þá í huga að verið er að tala um VIRKJANASVÆÐI með allri þeirri eyðileggingu á náttúrunni sem slíku fylgir.

Áður birt á Facebook síðu höfundar, hér með örlitlum breytingum.