Síðustu misseri hef ég verið að ljósmynda þá spennandi undraveröld sem íslenskir hraunhellar hafa að geyma en því verkefni er hvergi nærri lokið, þótt ég hafi gert hlé á því um stund. Íslenskir hraunrásarhellar eru margir afar fallegir með áhugaverðum hraunmyndunum sem gaman er að ljósmynda. Þessar myndanir finnur maður ekki ofanjarðar, sem gerir þær enn áhugaverðari. Mest gaman er að fara í helli sem maður hefur ekki séð áður og veit því lítið hvað bíður manns niðrí myrkrinu. Dulúð hellanna hefur mikið aðdráttarafl. Þessi magnaða náttúra er samt flestum hulin og því er gaman að geta sýnt fólki fegurð þessara hulduheima. Margir hrífast af þessari fegurð þótt þeir treysti sér ekki til að skoða hana með eigin augum, af ýmsum ástæðum, meðal annars innilokunarkennd. Þess vegna þurfa að vera til góðar myndir af þessari náttúru en framboð á þeim hefur svosem ekki verið mikið.
Hellaferðir eru líkamlega krefjandi og ýmislegt sem hafa ber í huga er varðar öryggi og umgengni. Hraunmyndanir í hellum eru afar viðkvæmar og því þarf að fara mjög varlega til að eyðileggja ekki neitt. Dropsteinar eru t.d. friðlýstir og þá ætti enginn að snerta, aldrei -hvað þá fremja þann glæp að taka slíkan með sér. Fólk sem ekki getur virt þessa viðkvæmu náttúru hefur ekkert þangað að gera.
Eins þarf að gæta vel að öryggi sínu til að lenda ekki í ógöngum. Enginn ætti að fara einsamall í hellaferð því ef eitthvað kemur fyrir mann niðri í myrkrinu er maður algjörlega sambandslaus við umheiminn. Í hellum er ekkert farsímasamband. Hafa þarf góð ljós og fullt af auka rafhlöðum. Trúðu mér – þú vilt ekki verða ljóslaus niðrí myrkrinu. Í hellum er almyrkur og engin náttúruleg skíma. Sú staðreynd er reyndar eitt af því sem gerir hellaljósmyndun skemmtilega, þ.e. að lýsingin ræðst algjörlega af þeim ljósgjafa sem þú kemur með og hvernig þú beitir honum. Þú hefur lýsinguna algjörlega í hendi þér.
Þetta þykjast menn gera í nafni verndunar þegar raunin er sú að þeir eyðileggja náttúrulegt umhverfi hellisins með raflýsingu og göngupöllum. Það fer að verða snúið að stunda hellaskoðun í íslenskri náttúru því tilhneigingin er sú að annað hvort einkavæða þá hella sem mest er varið í, eða klíkuvæða með keðjum og lásum þannig að einungis fáir útvaldir hafi aðgang að þeim. Hinn stórkostlegi Búri er eitt dæmi.
Nær hefði verið að stýra umferð í Búra heldur en að loka. Það hefði t.d. verið hægt með því að setja hann í umsjá opinbers aðila, eins og Umhverfisstofnunar. Þegar hellaáhugafólk vildi síðan fá aðgang að hellinum hefði það getað sótt sérstaklega um það til umsjónaraðila sem úthlutar dögum, setur skýrar reglur og afhendir lykla. Þetta fyrirkomulag þekkist víða erlendis í samfélagi hellaklúbba.
Því hver á annars að njóta merkilegheitanna ef öllu er lokað með keðjum og lásum?
Fyrir hvern er verið að vernda og í hvaða tilgangi?
Til að komandi kynslóðir geti notið náttúrunnar til jafns á við núlifandi kynslóðir?
Nei, sannarlega ekki. Þær munu nefnilega líka koma að keðjunum og lásunum.
Hér er stutt video sem ég klippti saman úr síðustu hellaljósmyndaferð í einn af mörgum hraunhellum Reykjanesskagans. Eins og myndbandið ber með sér geta sumir hraunrásarhellar verið talsverð völdunarhús og því þarf að horfa vel í kringum sig og helst merkja krossgötur og leiðir með litlum ljósum (breadcrumbs).
Að sjálfsögðu gef ég ekki upp staðsetningu hellisins.