Margir hafa komið út að Reykjanesvita og Valahnúk. Færri hafa hins vegar lagt leið sína utar á nesið en þar er að finna áhugaverð jarðfræðifyrirbæri sem vert er að skoða. Tveir firnastórir eldgígar bera þar vitni um mikla eldvirkni svæðisins á forsögulegum tíma. Annar þeirra trónir á toppi Skálafells en bungan sú er nokkuð áberandi í landslaginu sunnan Gunnuhvers. Hin gígurinn er í Háleyjarbungu, fornri gosdyngju nokkuð austar og nær ströndinni.
Báðar þessar gosstöðvar hafa verið virkar snemma á nútíma eftir hop ísaldarjökulsins. Þessar dyngjur eru fremur smáar í samanburði við aðrar íslenskar systur þeirra en engu að síðar afar áhugaverðar að skoða. Háleyjarbunga hefur í fyrndinni verið mun stærri en ágangur sjávar nagað utan af henni hægt og bítandi í gegnum árþúsundin. Gígur hennar er um 20-25 metra djúpur og í berginu má greina græna ólivínkristalla. Háleyjarbunga er úr frumstæðri basalttegund úr möttli sem nefnist pikrít.
Skálafell hefur hlaðist upp á löngum tíma í nokkrum gosum á gossprungum. Toppgígurinn hefur líklega orðið til fyrir rúmum 3000 árum en elstu hraunlögin úr Skálafelli eru yfir 8 þúsund ára og sjást í misgengisgjá mikilli næst ströndinni að sunnanverðu. Þessi gjá liggur alla leið út að Háleyjarbungu og gaman er að fá sér göngutúr eftir henni í landslagi sem gætt átt vel heima í einhverri fantasíu-bíómyndinni.
Til að skoða þessi fyrirbæri er best að leggja bílnum við Gunnuhver og fylgja gönguleið þaðan upp á Skálafell. Þaðan væri svo hægt að ganga niður að misgenginu og fylgja því alla leið að Háleyjarbungu. Frá Háleyjarbungu liggur vegslóði sem hægt að fylgja til baka að bílastæði Gunnuhvers. Samtals gæti þessi gönguferð verið á bilinu 4-5km.
Horft yfir gíg Háleyjarbungu. Til að átta sig betur á stærðarhlutföllum þá stend ég
í blárri peysu á gígbarminum.
Á myndinni efst í greininni er horft yfir gígbarm Skálafells í átt að Valahnúki og Reykjanesvita.
____________________________________________________