Vilja breyta fólkvangi í virkjanasvæði

posted in: Reykjanesskagi | 0

Í Krýsuvík er mikil náttúrufegurð sem dregur að sér fjölda fólks til útvistar og náttúruskoðunar. Krýsuvík er innan Reykjanesfólkvangs, sem stofnaður var formlega með friðlýsingu  árið 1974. Vinsælasti áningarstaðurinn í Krýsuvík er hverasvæðið í Seltúni en á undanförnum árum hefur umferð ferðamanna þangað aukist gríðarlega. Hætt er við að svæðið missi aðdráttarafl sitt verði það virkjað eins og HS Orka hefur í hyggju.

 

 

Fögur hauststilla við Kleifarvatn. Náttúrufegurð Krýsuvíkur heillar marga.
Fögur hauststilla við Kleifarvatn. Náttúrufegurð Krýsuvíkur heillar marga.

Sótt að fólkvanginum

Fjögur háhitasvæði innan Reykjanesfólkvangs eru í sigtinu undir hugsanlegar virkjanir með tilheyrandi náttúruspjöllum. Seltún, Sandfell og Austurengjahver voru flokkuð í orkunýtingarflokk í  3. áfanga rammaáætlunar. Eingöngu Trölladyngja er eftir í biðflokki.  HS Orka er í viðræðum við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði um fyrirhugað virkjanasvæði  við Seltún . Þeir hjá HS Orku eru reyndar hættir að tala um virkjanasvæði – núna heita þau „auðlindagarðar“  því það kann að láta betur í eyrum almennings.

Fyrir nokkrum misserum reyndi Grindavíkurbær að fá önnur sveitafélög, sem aðild eiga að fólkvanginum, til að leggja hann niður. Með því hefði  HS Orku verið gert auðveldara að fara inn á svæðið með virkjanir því með afnámi fólkvangsins hefði verndargildi svæðisins verið rýrt verulega. Grindavíkurbær veitti nýlega HS Orku leyfi til rannsóknarborana við gígaröðina í Eldvörpum, náttúrusmíð sem nýtur fágætis á heimsvísu.

 

Horft yfir Krýsuvík frá suðri til norðurs. Sveifluhálsinn til vinstri. Fjærst er Kleifarvatn, Grænavatn til hægri og Gestsstaðavatn til vinstri. Framan við það er Krýsivíkurheimilið. Rauði liturinn sýnir fyrirhugaðan borteig samkvæmt deiliskipulagsstillögu HS Orku.
Horft yfir Krýsuvík frá suðri til norðurs. Sveifluhálsinn til vinstri. Fjærst er Kleifarvatn, Grænavatn til hægri og Gestsstaðavatn til vinstri. Framan við það er Krýsuvíkurheimilið. Rauði liturinn sýnir fyrirhugaðan borteig samkvæmt deiliskipulagsstillögu HS Orku.

Vinsæll áningarstaður ferðafólks

Krýsuvík og Trölladyngjusvæðið er afar vinsælt til útivistar og gönguferða enda er þessi náttúruparadís stutt frá mesta þéttbýlissvæði landsins og vel aðgengileg bæði frá Krýsuvíkurvegi og Suðurstrandarvegi.  Svæðið hentar því  ákaflega vel til dagsferða frá höfuðborginni og öðrum þéttbýlisstöðum á suðvesturhorni landsins. Hverasvæðið í Seltúni, undir hlíðum Sveifluhálsins, er eitt þeirra svæða sem til stendur að fórna undir orkuvinnslu. Þar er að finna bæði leir- og vatnshveri og mikla litasinfóníu í samspili ummyndunar bergs, hverasalta og útfellinga.  Þangað kemur mikill fjöldi ferðamanna til að skoða þetta náttúrundur enda er Seltún  örstutt frá vegi.  Frá Seltúni liggja áhugaverðar gönguleiðir til allra átta. Ein sú vinsælasta liggur yfir Sveifluháls eftir Ketilstígnum, fornri alfaraleið milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Í tillögum Landsnets yrði háspennustrengur lagður yfir Seltúnið, upp með Ketilstígnum yfir Sveifluhálsinn og meðfram Arnarvatni.  Þaðan lægi hann yfir hraunbreiður Móhálsadals , yfir Núpshlíðarhálsinn og myndi þannig þvera allan fólkvanginn.

Stórbrotið landslag Sveifluhálsins

Sveifluháls er 18 km langur og myndaður úr móbergi sem hlaðist hefur upp við endurtekin sprungugos undir ísaldarjökli. Slíkar móbergsmyndanir njóta fágætis á heimsvísu. Ganga upp á Sveifluháls er engin ofraun en þar uppi mætir manni afar áhugavert hálendislandslag. Móbergið er talsvert sprungið og molnað fyrir langvinn áhrif vatns og vinda og tíðir jarðskjálftar á þessum slóðum hjálpa eflaust til.  Í veðursorfnu móberginu má sjá ótal kynjamyndir í þessu kynngimagnaða landslagi.

Á miðjum hálsinum er tilkomumikill gígur og norðan við hann er hinn 395 metra hái Hádegishnúkur, hæsti tindur hálsins. Tindarnar á hálsinum er gamlir gosgangar og skiptast í svokallaða Hellutinda nyrst og Stapatinda sunnar. Ofan af Hádegishnúki er feikna gott útsýni en auðveldast er að ganga upp á hann að sunnanverðu.

Gönguhópur í stórbrotnu landslagi Sveifluhálsins.
Gönguhópur í stórbrotnu landslagi Sveifluhálsins.

Ofmetin vinnslugeta – galnar virkjunarhugmyndir

Hugmyndir um virkjun þessara svæða innan Reykjanesfólkvangs tengdust aðallega álveri Norðuráls í Helguvík. Uppi voru miklar skýjaborgir um vinnslugetu svæðisins sem átti að vera meginstoðin í orkuöflun fyrir álverið.  Talað var um 445 megavött  til 50 ára á meðan mat óháðra sérfræðinga hljóðaði upp á 120 megavött – með hámarks bjartsýni.  Orkuþörf álversins var 650 megavött miðað við 360 þúsund tonna framleiðslugetu.  Þótt öll vinnanleg orka á Reykjanesskaganum hefði farið í álverið hefði það ekki dugað.

Álverið stendur hálfbyggt út í Helguvík og mun líklega aldrei hefja starfsemi en það kemur þó ekki í veg fyrir að HS Orka vilji fara inn í Reykjanesfólkvang með vinnuvélar og jarðbora. Eins og fyrr segir hefur fyrirtækið verið í viðræðum við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði með það fyrir augum. Verði af virkjun á þessu svæði er ljóst að ásýnd þess mun gjörbreytast með öllum þeim mannvirkjum sem fylgja munu virkjuninni og tilheyrandi raski á náttúrunni.

Innan marka Reykjanesfólksvangs er að finna mörg áhugaverð náttúrufyrirbæri: Hverasvæðin með allri sinni litadýrð, víðerni og hálendislandslag, eitt fallegasta fuglabjarg landsins og allar gerðir af gosminjum svo fátt eitt sé nefnt. Möguleikarnir til útvistar og náttúruskoðunar í fólkvanginum eru óteljandi enda nýtur hann mikilla vinsælda í þeim efnum í nálægð við stærsta þéttbýlissvæði landsins. Gildi svæðisins sem fólkvangs og útivistarsvæðis verður harla lítið verði honum breytt í orkuvinnslusvæði.  Það segir sig sjálft.

 

Eldvörp Trölladyngja