Undur og listasmíð náttúrunnar í Vesturdal

posted in: Íslandsperlur, Ljósmyndablogg | 0

 

Hvers kyns bergmyndanir vekja gjarnan áhuga minn og forvitni, sem er ein ástæða þess að ég fór að ljósmynda hraunrásarhella.  Í bergmyndunum má oft finna mögnuð listaverk frá náttúrunnar hendi, allskyns form, mynstur, skúlptúra, fés og fígúrur – sumsé frábær myndefni.

Í Vesturdal Hljóðakletta er að finna gott dæmi um slíka listasmíð náttúrunnar en þar er mjög sérkennileg myndun í klettaveggjum. Formin minna helst á bein og kjúkur furðuvera eða jafnvel fornaldarskrímsla og er auðvelt að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn þegar maður stendur undir þessum forvitnilegu klettaveggjum.  Þarna geta gikkglaðir ljósmyndarar algjörlega misst sig tímunum saman í endalausum möguleikum sem þessi form gefa.

Ekki veit ég almennilega hvernig þessi myndun hefur orðið til eða hvenær. Ég fann lítið eða ekkert um það á veraldarvefnum annað en að þarna mun vera um að ræða svokallaða holuveðrun eða býkúpuveðrun,  sem svo er nefnd vegna þess að formin minna á innviði í býflugnabúi.  Ég setti þessar myndir inn á síðu áhugafólks um jarðsögu og jarðfræði  og þar var fólk sammála um að slík myndun væri vegna frostveðrunar, þ.e. vatn sem frýs og þiðnar á víxl í holum, sprengir þær út og gerir þessi undursamlegu mynstur. Til þess þarf bergið að vera blöðrótt eftir gasbólur sem mynduðust við storknun þess fyrir margt löngu. Bergið í Vesturdal mun þannig vera umbreytt stuðlaberg, eftir því sem ég kemst næst.

Hér eru nokkur sýnishorn: